Mælt verður fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna á Alþingi í dag, þar sem lagt er til að kosningaaldur verði lækkaður niður í 16 ár.
Áður hefur verið miðað að því að lækka kosningaaldur almennt úr 18 árum í 16 ár en hér er hins vegar lagt til að stíga skrefið til hálfs með því að breyta kosningaaldri í kosningum til sveitarstjórna sem krefst aðeins einfaldrar lagabreytingar.
Andrés Ingi Jónsson, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og þingmaður Vinsti grænna, segir í samtali við Kjarnann að málið hafi verið inni á þingi í einni mynd eða annarri í um 11 ár. Það hafi tekið breytingum í áranna rás en nú séu flutningsmenn að einbeita sér að sveitarstjórnarstiginu.
Hann bætir því við að ef frumvarpið verður að lögum þá sé hægt að gera þessar breytingar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.
„Í framhaldinu er síðan hægt að taka stóra stökkið með stjórnarskrárbreytingum,“ segir hann og bendir á að þessi leið hafi verið farin í mörgum löndum, til að mynda í Skotlandi og Austurríki.
9.000 manns fá að kjósa
Í greinargerð með frumvarpinu segir að það sé lagt fram til að styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks og auka tækifæri þess til að hafa áhrif á samfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur. „Verði frumvarpið að lögum munu aldursmörk kosningarréttar í sveitarstjórnarkosningunum 2018 verða við 16 ára aldur í stað 18 ára eins og nú er. Munu þá nærri því 9.000 manns fá tækifæri til að hafa á kjördegi áhrif á mikilvægar ákvarðanir sem varða líf þeirra og umhverfi sem ekki njóta þessara grundvallarréttinda lýðræðisins að óbreyttum lögum,“ segir í greinargerðinni.
Jafnframt segir að dræm og dvínandi þátttaka ungs fólks í kosningum til löggjafarþinga og sveitarstjórna sé víða staðreynd og valdi áhyggjum af framtíð lýðræðis. Þyki líkur til þess að fólk geti orðið afhuga stjórnmálaþátttöku og snúist af braut lýðræðislegrar stefnumótunar og ákvarðanatöku, þar sem málum er ráðið til lykta með umræðu og síðan kosningum, ef ekki gefist kostur á þátttöku jafnskjótt og vitund einstaklingsins um áhrifamátt sinn og ábyrgð á eigin velferð og samfélagsins hefur vaknað.
„Að sjálfsögðu eiga hér einnig við hin almennu sjónarmið um lýðræðislega framkvæmd, þ.e. að mikil og víðtæk þátttaka í kosningum gefi traustasta vitneskju um vilja borgaranna og því mikilvægt að sem allra flestir njóti atkvæðisréttar,“ segir enn fremur í greinargerðinni.