Ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn og Framsóknarflokkur, mælast samtals með 48 prósent fylgi samkvæmt nýrri könnun MMR. Stuðningur við ríkisstjórnina er mun meiri, eða 66,7 prósent. „Þetta er meiri stuðningur en nokkur ríkisstjórn hefur notið frá hruni og ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að mun færri, eða rúm 48%, segjast myndu kjósa ríkisstjórnarflokkana,“ segir í tilkynningu frá MMR. Könnunin var framkvæmd 12. til 15. desember.
Sjálfstæðisflokkurinn mædist með með stuðning 23,2 prósent fylgi og er þar með stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi.
Samfylkingin og Vinstri græn mælast nokkurn vegin jafn stór, með tæplega 17 prósent fylgi, en Vinstri græn bæta við sig 3,7 prósentustigum frá því í síðustu könnun sem lauk þann þann 17. nóvember síðastliðinn.
Píratar bæta við sig 4,2 prósentustigum milli kannana og Flokkur fólksins tapar 4,7 prósentustigum.
Um framkvæmd könnunarinnar:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.
Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 923 einstaklingar, 18 ára og eldri.