Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, ætlar ekki að tjá sig efnislega um niðurstöðu kjararáðs sem leiddi til hækkunar á launum hennar og presta. Í frétt á vef þjóðkirkjunnar segir að hún telji það ekki í sínum verkahring. Eðlilegt sé þó að benda á að um sé að ræða kerfisbreytingar og launaleiðréttingar eftir tólf ára kyrrstöðu að undanskilinni kjaraskerðingu hjá prestastéttinni á árinu 2009.
Í fréttinni segir enn fremur:„Prestafélag Íslands lagði mikla vinnu í að gera kjararáði grein fyrir starfsumhverfi og starfsskyldum presta og biskupa. Á meðal þeirra gagna sem lögð voru fram var lýsing á daglegum verkefnum biskups Íslands sem hann vann að beiðni félagsins.. Niðurstaða ítarlegrar skoðunar og endurmats kjararáðs á starfskjörum biskupa og presta liggur nú fyrir og þarf ekki að koma á óvart að ástæða hafi þótt til ýmissa breytinga og leiðréttinga. Að öðru leyti mun biskup Íslands ekki tjá sig um niðurstöðurnar né svara fyrirspurnum um persónulega afstöðu sína til þeirra.“
Samkvæm úrskurði kjararáðs sem birtur var í gær hækka laun biskups, Agnesar Sigurðardóttur, um 21 prósent. Í úrskurðinum kemur fram að biskup skuli hafa tæplega 1,2 milljónir í mánaðarlaun auk 40 fastra yfirvinnueininga. Ein eining er 9.572 krónur og laun biskups því eftir hækkun alls 1.553.359 krónur á mánuði.
Í úrskurði kjararáðs segir: „Með ákvörðun kjararáðs frá 19. júní 2007 voru laun biskups Íslands felld að sömu launatöflu og gilti fyrir aðra embættismenn sem kjararáð ákveður laun, en áður heyrði undir Kjaradóm að ákveða biskupi laun. Frá þeim tíma hafa laun hans tekið breytingum í samræmi við almennar ákvarðanir kjararáðs. Biskup Íslands er æðsti embættismaður hinnar stjórnarskrárbundnu íslensku þjóðkirkju. Við ákvörðun launakjara hans er höfð hliðsjón af því hlutverki hans og starfsskyldum samkvæmt lögum og starfsreglum sem og eðli og umfangi starfsins. Þá er einnig tekið mið af því innbyrðis samræmi sem kjararáði ber að gæta og áður er gerð grein fyrir.“
Hækkunin er afturvirk til 1. janúar 2017, samkvæmt úrskurðinum. Um næstu mánaðarmót mun biskup því fá eingreiðslu fyrir síðasta árið en sú upphæð nemur 3,3 milljónir króna.