Fulltrúar sex stjórnarmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi hafa farið fram á að stjórnmálaflokkar fái 362 milljóna króna viðbótarframlag á fjárlögum næsta árs til viðbótar við þær 286 milljónir króna sem flokkarnir áttu að fá. Heildarframlag til þeirra, verði erindi flokkanna samþykkt, verður þá 648 milljónir króna. Framlagið mun því aukast um 127 prósent ef af hækkuninni verður.
Þetta kemur fram í sameiginlegu erindi framkvæmdastjóranna sex sem sent var fjárlaganefnd Alþingis 18. desember síðastliðinn, og Kjarninn hefur undir höndum. Framkvæmdastjórarnir sex eru Ásgeir Runólfsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Vinstri grænna, Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, Svanur Guðmundsson, fulltrúi Miðflokksins, og Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Hvorki Píratar né Flokkur fólksins skrifuðu sig á erindið.
Kallað eftir „leiðréttingu“
Erindið ber yfirskriftina „Nauðsynleg hækkun opinberra framlaga til stjórnmálasamtaka“.
Í því er farið fram á að framlög til stjórnmálaflokka verði „leiðrétt“. Þar segir: „Með lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, sem tóku gildi árið 2007, átti að treysta rekstrargrundvöll stjórnmálaflokka með fjárframlögum frá ríkinu samhliða því að framlög frá einstaklingum og lögaðilum voru takmörkuð. Frá því að lögin komust til framkvæmda hafa framlögin lækkað að raunvirði ár frá ári. Þetta hefur haft mikil áhrif á starfsemi stjórnmálaflokka til hins verra. Þess vegna erum við undirrituð sammála um nauðsyn þess að leiðrétta framlögin. Að óbreyttu er ekki hægt að uppfylla markmið laganna um að ,,auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið“. Því er hér farið fram á leiðréttingu samkvæmt vísitölum frá árinu 2008 sem nemur 362 milljónum til viðbótar lið 05.4 Stjórnsýsla ríkisfjármála, 09-999 Ýmislegt nr. 118 í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018.“
Sá liður er upp á 286 milljónir króna og því myndi heildarframlag til stjórnmálaflokka fara í 648 milljónir króna.
Segja lýðræðið eiga betra skilið
Í greinargerð sem fylgir erindinu segir að sú upphæð sem stjórnmálaflokkum sé ætluð á fjárlögum hafi lækkað um helming á raunvirði frá árinu 2008. Nú eigi átta flokkar fulltrúa á Alþingi. „Hver þeirra stendur fyrir eigin rekstri og á að reka virkt og ábyrgt stjórnmálastarf um allt land, jafnt á sviði landsmála og sveitarstjórna, árið um kring.
Til samanburðar má nefna að dómsmálaráðuneytið hefur sagt að kostnaður vegna alþingiskosninganna á síðasta ári hafi verið rétt tæpar 350 milljónir, og að gera mætti ráð fyrir að hann yrði svipaður í ár. Stjórnmálasamtök starfa í þágu almannahagsmuna en hafa hvergi nærri bolmagn á við helstu hagsmunasamtök. Flestir flokkar eru reknir með 0-5 starfsmönnum í dag og samtals eru 13 fastráðnir starfsmenn hjá þeim átta flokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi.
Til samanburðar má 1 geta að Samtök atvinnulífsins eru með 30 starfsmenn, Samtök iðnaðarins 16, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi 15, ASÍ með 22 og VR 62 starfsmenn. Í þessu umhverfi er stuðningur við nýsköpun, þróun, sérfræðiþekkingu og alþjóðatengsl enginn inni í stjórnmálasamtökunum; endar ná ekki saman til að sinna grunnþörfum í rekstri stjórnmálaflokka og að uppfylla markmið laganna. Lýðræðið á Íslandi á betra skilið.“