Almenna leigufélagið, sem er í eigu sjóðs á vegum GAMMA Capital Management, hefur hafið undirbúning að skráningu á markað og er horft til næstu 18 til 24 mánaða í þeim efnum. Stjórn félagsins hefur samþykkt að gefa út skuldabréf á markaði fyrir allt að 30 milljarða króna, en frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Félagið á nú 1.214 íbúðir, sem eru í útleigu, og er eignasafn félagsins metið á 39 milljarða króna.
Tilgangur skuldabréfaútgáfunnar er að einfalda og styrkja fjármögnun félagsins, og einnig að gera félaginu mögulegt að stækka eignasafn félagsins.
Meira en 90 prósent af eignum félagsins eru í langtímaleigu og samanlagður fermetrafjöldi eignasafnsins um 110 þúsund fermetrar. Það þýðir að meðaltals fermetraverð er um 355 þúsund í eignasafninu.
Samkvæmt því sem fram kemur í Markaðnum er meðal annars stefnt að því að hagræða í rekstri félagsins og flytja höfuðstöðvar þess á Suðurlandsbraut, sem lið í því að undirbúa félagið undir skráningu.