Meirihluti fjárlaganefndar hefur gert tillögu um að framlög til stjórnmálaflokka verði hækkuð um 362 milljónir króna á næsta ári. Framlögin verða þá 648 milljónir króna og vaxa 127 prósent frá því sem áður var ætlað að myndi renna til málaflokksins. Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar sem nefndarmenn stjórnarflokkanna þriggja skrifa undir.
Í álitinu kemur fram að tillagan sé studd með yfirlýsingu sex formanna stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Þeir eru Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Vinstri græn, Samfylking, Miðflokkur og Viðreisn. Flokkur fólksins og Píratar eru ekki aðilar að tillögunni. Í yfirlýsingu formannanna kemur meðal annars fram að „tilgangur opinberra fjárframlaga til stjórnmálasamtaka er að tryggja fjármögnun, sjálfstæði og lýðræðisleg vinnubrögð allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Virk starfsemi stjórnmálasamtaka er hornsteinar lýðræðisins og er nauðsynlegt að tryggja á hverjum tíma að þau geti sinnt hlutverki sínu með eðlilegum hætti og án þess að þurfa að treysta um of á fjárframlög einkaaðila. Er það ósk formanna sem rita undir yfirlýsinguna að forsætisráðherra setji af stað vinnu við endurskoðun laga nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, með þátttöku fulltrúa allra stjórnmálasamtaka sem sæti eiga á Alþingi.“
Erindi sent inn á mánudag
Kjarninn greindi frá því á miðvikudagskvöld að framkvæmdastjórar eða fulltrúar sex stjórnmálaflokka hefðu sent fjárlaganefnd erindi 18. desember. Það bar yfirskriftina: „Nauðsynleg hækkun opinberra framlaga til stjórnmálasamtaka“.
Í því er farið fram á að framlög til stjórnmálaflokka verði „leiðrétt“.
Til samanburðar má nefna að dómsmálaráðuneytið hefur sagt að kostnaður vegna alþingiskosninganna á síðasta ári hafi verið rétt tæpar 350 milljónir, og að gera mætti ráð fyrir að hann yrði svipaður í ár. Stjórnmálasamtök starfa í þágu almannahagsmuna en hafa hvergi nærri bolmagn á við helstu hagsmunasamtök. Flestir flokkar eru reknir með 0-5 starfsmönnum í dag og samtals eru 13 fastráðnir starfsmenn hjá þeim átta flokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi.
Til samanburðar má 1 geta að Samtök atvinnulífsins eru með 30 starfsmenn, Samtök iðnaðarins 16, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi 15, ASÍ með 22 og VR 62 starfsmenn. Í þessu umhverfi er stuðningur við nýsköpun, þróun, sérfræðiþekkingu og alþjóðatengsl enginn inni í stjórnmálasamtökunum; endar ná ekki saman til að sinna grunnþörfum í rekstri stjórnmálaflokka og að uppfylla markmið laganna. Lýðræðið á Íslandi á betra skilið.“