Héraðsdómarinn Jón Höskuldsson hefur sent dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, bréf þar sem hann krefur íslenska ríkið um skaða- og miskabætur vegna skipunar í Landsrétt. Rétturinn tekur til starfa 1. janúar.
RÚV greindi frá þessu í gærkvöldi.
Hæfisnefnd mat Jón sem einn af 15 hæfustu umsækjendum en dómsmálaráðherra sniðgekk fjórar tillögur nefndarinnar. Jón var ein þeirra.
Kjarninn greindi frá því hvernig matið var, 2. júní síðastliðinn, hjá hæfisnefndinni, og birti meðal annars nákvæm gögn um hvernig umsækjendur voru metnir.
Eins og kunnugt er ákvað Sigríður Á. Andersen að gera fjórar breytingar á lista yfir 15 hæfustu einstaklingana, að mati hæfisnefndar. Þeir fjórir sem færðir voru niður á listanum voru Ástráður Haraldsson, Jóhannes Rúnar Jóhannsson, Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson. Eiríkur var efstur á listanum, af þessum fjórum, en hann var metinn sjöundi hæfasti umsækjandinn.
Íslenska ríkinu var gert að greiða lögmönnunum Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannessyni 700 þúsund krónur í bætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar.