Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, segir í viðtali sem Harry Bretaprins tók við hann, fyrir breska ríkisútvarpið BBC, að óábyrg notkun samfélagsmiðla sé hættuleg samfélögum. Hann hvetur þá sem eru leiðtogar, hvar sem þeir eru í samfélaginu, til þess að beita sér fyrir því að opin og upplýst umræða geti fundið sér farveg á internetinu á nýjan leik. Þannig sé raunin ekki núna, og hætturnar séu augljósar.
„Ein af hættunum við internetið þessi misserin, er að fólk getur lifað í algjörlega ólíkum veruleika. Upplýsingaflæðið, innan þess ramma sem skapast hjá hverjum og einum, er að ýta undir fordóma hjá fólki,“ segir Obama.
Hann segir að það þurfi að finna leiðir til nota þessa tiltölulega nýju tækni með ábyrgari hætti, þannig að heilu samfélögin klofni ekki vegna rangra eða misvísandi upplýsinga um hin ýmsu mál.
Britain’s Prince Harry sat down with former President Barack Obama for his first interview since leaving office, discussing everything from how he felt on his last day in office to the role of social media. https://t.co/uTJRBfmjuS pic.twitter.com/nCXn2PWFQq
— NBC Nightly News with Lester Holt (@NBCNightlyNews) December 28, 2017
Hann segir einnig að fólk verði að geta skilið á milli veraldarinnar á samfélagsmiðlunum og síðan í hinu daglega lífi. „Fólk kemst oft að því, að þegar það hittist eftir að hafa kynnst á samfélagsmiðlunum, að hlutirnir eru flóknari en þeir virtust,“ segir Obama.
Hann segir samfélagsmiðlana gefa of einfalda mynd af líðandi stund, og fólk verði að passa sig á því. Fólki eigi að hittast á barnum, í hverfunum og halda í þá hefð að kynnast almennilega „maður á mann“.
Mikil umræða hefur átt sér stað víða um heim um áhrif samfélagsmiðla á samfélögin, og lét fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Facebook, Chamath Palihapitiya, hafa eftir sér á ráðstefnu Stanford háskóla, sem The Verge greindi frá, að Facebook væri að „tæta samfélög í sundur“. Upplýsingaflæðið og samskiptin sem ættu sér stað á Facebook væru að gjörbreyta samfélögum, og þá til hins verra. Miðlarnir væru ávanabindandi og umræðan á þeim væri villandi og grunn, og ýtti undir öfgar og fordóma.
Óhætt er að segja að uppgangur samfélagsmiðla hafi verið ótrúlega hraður.
Á síðustu tíu árum, samhliða hraðri útbreiðslu snjallsíma, hefur notendafjöldi samfélagsmiðla margfaldast.
Facebook er sá miðill sem hefur áð mestri fótfestu en virkir notendur voru um tveir milljarðar um heim allan, um mitt þetta ár.