Tilkynnt verður um skipan átta nýrra héraðsdómara síðar í dag. Alls sóttu 39 umsækjendur um stöðurnar. Kjarninn hefur umsögn dómnefndar undir höndum.
Þar kemur fram að þeir átta sem dómnefnd mat hæfasta eru Arnar Þór Jónsson, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Ásgerður Ragnarsdóttir hæstaréttarlögmaður, Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður, Bergþóra Ingólfsdóttir hæstaréttarlögmaður, Daði Kristjánsson, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, Helgi Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi yfirlögfræðingur Kaupþings, Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, og Pétur Dam Leifsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.
Alls verða því skipaðir fimm karlmenn og þrjár konur ef farið verður eftir niðurstöðu hæfisnefndar. Bergþóra verður skipuð í embætti dómara við Héraðsdóm Vestfjarða og Pétur Dam verður skipaður í embætti með starfsstöð við Héraðsdóm Reykjavíkur en sinna störfum við alla héraðsdóma. Hin sex verða skipuð í embætti við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Dómnefnd sendi umsækjendunum 39 umsögn sína, sem er 96 blaðsíður, 13. desember síðastliðinn. Þeir höfðu viku til að gera athugasemdir og koma þeim til dómnefndar. Hún skilaði síðan Guðlaugi Þór Þórðarsyni, settum dómsmálaráðherra í málinu, umsögninni 22. desember. Tilkynnt verður um skipan dómara á vef dómsmálaráðuneytisins síðar í dag og umsögnin birt þar í heild sinni. Guðlaugur Þór var settur dómsmálaráðherra í málinu eftir að Sigríður Á. Andersen vék sæti í því. Ástæða þess er sú að Ástráður Haraldsson, einn þeirra sem verður í dag skipaður, stefndi íslenska ríkinu vegna Landsréttarmálsins. Þar var hann ekki á meðal þeirra 15 sem Sigríður gerði tillögu um að yrðu skipaðir dómarar við þann rétt þrátt fyrir að dómnefnd hefði metið hann á meðal þeirra 15 hæfustu. Niðurstaða Hæstaréttar í máli Ástráðs var sú að Sigríður hefði brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga með ákvörðun sinni.
Dómararnir átta áttu að hefja störf á þriðjudag.
RÚV greindi frá því síðdegis í dag að Guðlaugur Þór hafi í dag sent dómnefndinni bréf þar sem óskað er eftir frekari rökstuðningi fyrir því að þessir átta tilteknu umsækjendur teljist hæfari en hinir. Bréfið verður birt síðar í dag. Skipan dómaranna mun því að öllum líkindum tefjast enn frekar.