Fjárlög fyrir árið 2018 voru samþykkt á Alþingi í gærkvöldi. 34 þingmenn greiddu atkvæði með samþykkt þeirra. Í kjölfarið var þingi slitið og það kemur ekki saman aftur fyrr en 22. janúar næstkomandi. Afgangur á ríkisrekstri verður tæplega 33 milljarðar króna. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram fyrr í desember var reiknað með að afgangurinn yrði 35 milljarðar króna. Því hafa útgjöld aukist um rúma tvo milljarða króna í meðförum þingsins undanfarnar vikur.
Fjárlagafrumvarp síðustu ríkisstjórnar, sem lagt var fram í september, gerði ráð fyrir að fjárlög næsta árs myndu skila ríkissjóði 44 milljarða króna afgangi sem gæti nýst til að greiða niður skuldir.
Alls eiga innheimtar tekjur að verða um 840 milljarðar króna sem er það mesta sem ríkið hefur nokkru sinni haft í tekjur á einu ári. Áætlaðar tekjur 2017 eru 39 milljörðum krónum lægri. Ef miðað er við fjárlög ársins 2017 munu útgjöld aukast um 55,3 milljarða króna.
Framlög til heilbrigðismála aukast um 22 milljarða króna frá síðustu fjárlögum og um átta milljarða króna frá því frumvarpi sem Benedikt Jóhannesson lagði fram í september. Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækka um 8,5 prósent og tekjuviðmiðunarmörk um 7,4 prósent.
Framlög til menntamála aukast um 4,1 milljarð króna frá fjárlögum 2017. Í samgöngumálum leggur ríkisstjórnin áherslu á að hraða uppbyggingu í vegamálum þannig að á árinu 2018 verði 2,3 milljörðum króna varið til viðbótar í framkvæmdir á vegum, þ.e. umfram það sem gert var ráð fyrir í frumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar. Um er að ræða níu framkvæmdir sem snúa fyrst og fremst að umferðaröryggismálum en einnig aðgerðum til að greiða úr umferð og minnka tafir.