Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti átta héraðsdómara hefur svarað bréfi setts dómsmálaráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þar sem nefndin áréttar að nefndin lúti ekki boðvaldi ráðherra, heldur sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Kjarninn hefur bréfið undir höndum.
Guðlaugur sendi nefndinni bréf í kjölfar umsögn hennar um hvaða átta umsækjendur hún telur hæfasta til að gegna embættum héraðsdómara. Taldi ráðherra að við lestur umsagnarinnar og andmæla sem bárust frá 23 umsækjendum hefðu vaknað ýmsar spurningar um hvernig mati og málsmeðferð nefndarinnar var háttað.
Í svari nefndarinnar er meðal annars spurningum ráðherra í tíu töluliðum svarað. Ráðherra gerði til að mynda athugasemdir við að dómnefndin hefði ekki notast við stigatöflu til þess að raða umsækjendum, líkt og gert var í umsögn um þá sem sóttu um stöður við Landsrétt. Nefndin segir tæki dómnefndar, þar á meðal töluleg samlagningartæki eins og „excel“, mismunandi og ráðist meðal annars af fjölda umsækjenda og samsetningu umsækjendahópsins. Slíkar töflur hafi ekki verið notaðar í störfum nefndarinnar fyrr en í Landsréttarumsögninni. Nefndin setti upp töflu til grófflokkunar umsækjenda sem hún telur vera vinnuskjal sem ekki verður afhent.
Þá segir í bréfinu að ráðherra hafi fundið að því að ekki sé í umsögninni rökstutt sérstaklega á grundvelli heildarmats hvers vegna þeir umsækjendur sem metnir voru hæfastir séu taldir bera af, en ekki aðrir. Nefndin segir ekki ljóst hvað ráðherra á við. Fram komi hvaða þættir voru metnir og hvernig umsækjendur voru taldir hafa komið út í hverjum einstökum þætti. Megináherslan hafi verið á þrjá stóra þætti, það er dómarareynslu, reynslu af lögmannsstörfum og stjórnsýslustörfum og þessir þættir metnir jafnt. Að auki hafi farið fram sérstakt sundurgreint mat á menntun, fræðistörfum, kennslu og útgáfu. Í þeim samanburði sem fer fram í hverjum þætti felst matið, sem síðan er dregið saman í heildarniðurstöðu.
Dómnefndin segir að samkvæmt lögum og reglum sé henni falið að ákveða hvaða umsækjendur séu hæfastir til að hljóta þau dómaraembætti sem veita á. Hún segist hafa komist að sinni niðurstöðu og um aðra umsækjendur muni hún ekki fjalla frekar en orðið er í umsögninni.
Í bréfinu er sérstaklega vísað í nýfallinn dóm Hæstaréttar þar sem umsækjanda um embætti dómara við Landsrétt voru veittar miskabætur vegna þess að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra var talinn hafa brotið reglur þegar hún vék frá áliti dómnefndarinnar varðandi veitingu dómaraembættanna. Í dómnum segir að lagasetning um dómnefndina hafi haft það að markmiði að styrkja sjálfstæði dómstóla og auka traust almennings á því að dómarar væru óháðir valdhöfum framkvæmdavalds. Efnislega sömu reglur hafi verið teknar upp í lög um dómstóla, þar sem rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga hafi verið að verulegu leyti létt af ráðherra við skipun í embætti héraðsdómara og skyldan þess í stað lögð á herðar sjálfstæðrar og óháðrar dómnefndar sem skipuð var með tilliti til þess að tryggt yrði að sérþekking væri þar fyrir hendi um mat á hæfni umsækjenda um dómaraembætti.
Guðlaugur fer með málið þar sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra telst til þess vanhæf þar sem einn umsækjenda um embætti héraðsdómara er sá sem hún var talin hafa brotið gegn í áðurnefndum dómi. Sá, Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður, fékk dæmdar 700 þúsund krónur í miskabætur vegna brots dómsmálaráðherra.
Uppfært: Bréf nefndarinnar hefur nú verið birt á vef stjórnarráðsins.