Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í viðtali við Kastljós í kvöld að eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar, horft til næstu mánaða, væri að stuðla að stöðugleika og sátt á vinnumarkaði.
Hún sagði að staða í kjaraviðræðum ólíkra hópa á vinnumarkaði væri flókin, en lykilatriðið væri að reyna að komast út úr þeim deilum sem hafi verið einkennandi fyrir stöðuna á vinnumarkaði undanfarin ár, með tíðum verkföllum og hörðum kjaradeilum.
Laun hafa farið hækkandi á undanförnum árum og kaupmáttur launa er í sögulegu hámarki. Væntingar eru miklar á vinnumarkaði um myndarlegar launahækkanir í komandi kjarasamningum, en Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur sagt að lítið svigrúm sé til launahækkana.
Óhætt er að segja að mikill gangur sé nú í íslenska hagkerfinu og sýna nýjar atvinnuleysistölur að vinnufúsar hendur séu svo til allar að störfum þessi misserin. Atvinnuleysi mældist 1,7 prósent í nóvember, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í dag.
Íslenskur vinnumarkaður er nú með tæplega 200 þúsund einstaklinga á markaði. Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar voru 198.100 á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði í nóvember í fyrra, en það er 80,5 prósent atvinnuþátttaka. Samtals voru 194.700 af þeim á vinnumarkaði, 3.400 án vinnu og í atvinnuleit.
Á meðal atvinnulausra eru tvö þúsund karlar og 1.300 konur.