Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra segir að tvöföldun Hvalfjarðarganganna sé óumflýjanleg vegna aukinnar umferðar um göngin. Enn sé óljóst hvernig staðið verður að því en Spölur, sem rekur göngin í dag, hefur sýnt verkefninu áhuga. Sigurður Ingi útilokar ekki að verkefnið verði fjármagnað með gjaldtöku í göngin. Ákvörðun um að hætta gjaldtöku í Hvalfjarðargöng endanlega hefur því ekki verið tekin.
Eins og kveður á um í samningi Hvalfjarðarganganna er stefnt að því að ríkið eignist göngin og yfirtaki rekstur þeirra þann 11. júlí næstkomandi. Stefnt var að því að gjaldtöku í göngin yrði hætt eftir eigendaskiptin. Kjarninn hefur greint frá því að Spölur hafi verið með áform um tvöföldun ganganna. Sú ákvörðun verður því í höndum ríkisins.
Sigurður Ingi segir að umræðan um hvernig staðið verði að tvöföldun Hvalfjarðarganganna hafi verið til skoðunar í ráðuneytinu í nokkurn tíma en mikið liggur á að taka ákvörðun áður en göngin verða færð til ríkisins þann 11. júlí og gjaldtöku verður hætt.
Jón Gunnarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, hefur sagt að það stæði ekki til að ríkið myndi innheimta veggjöld í Hvalfjarðargöngunum þrátt fyrir að heimild til þess sé til staðar.