Íslenska ríkið fékk heimild til þess í nýsamþykktum fjáraukalögum að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um að láta borgina fá ríkislóðir innan marka hennar sem til stendur að byggja í um tvö þúsund íbúðir á næstu fimm árin. Á meðal þeirra lóða sem um ræðir eru Keldnaholt, Landhelgisgæslureiturinn, Veðurstofureiturinn og landið í kringum gamla SS-húsið í Laugardal.
Samningurinn verður gerður á grundvelli viljayfirlýsingar sem þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, undirritaði ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra í Reykjavík, 2. júní 2017. Sú yfirlýsing snerist um að vinna sameiginlega að þróun og skipulagningu á lóðum og löndum í Reykjavík sem eru í eigu eða umráðum ríkisins.
Síðasta ríkisstjórn, sem sat frá janúar 2017 og sprakk 15. september sama ár, samþykkti í febrúar á síðasta ári að setja á fót sérstakan aðgerðarhóp fjögurra ráðherra til að taka saman yfirlit yfir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin getur ráðist í til þess að ýta frekar undir byggingu lítilla og hagkvæmra íbúða. Aðgerðarhópurinn átti einnig skilgreina hvernig hægt verði að ná utan um þann framboðsskort á íbúðum sem er á íslenskum húsnæðismarkaði.
2. júní í fyrra hélt hópurinn svo blaðamannafund þar sem fram kom að hann mæti að með sértækum aðgerðum myndi jafnvægi nást á húsnæðismarkaði á árunum 2019 til 2020. Markmið aðgerðarhópsins var að byggja um 2.000 íbúðir á næstu árum á ríkislóðum.