Alls eru 150 mál á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar á komandi þingi sem sett verður 22. janúar næstkomandi og á, samkvæmt starfsáætlun, að starfa til 7. júní. Um er að ræða 110 frumvörp til laga, 32 þingsályktunartillögur og átta skýrslur. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fór yfir stöðu mála á þingmálaskránni á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er með 27 frumvörp á þingmálaskrá. Þar af hafa fimm þegar verið samþykkt sem lög frá Alþingi, eitt er til meðferðar þar, eitt hefur verið afgreitt úr ríkisstjórn en ekki lagt fram á þingi og eitt hefur verið lesið yfir hjá ráðuneytinu en ekki afgreitt úr ríkisstjórn. Þá eru alls 19 frumvörp í vinnslu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er með 15 frumvörp á þingmálaskrá. Ekkert þeirra hefur verið lagt fram á þingi enn sem komið er en eitt er til meðferðar á Alþingi. Fjögur frumvörp hafa verið samþykkt í ríkisstjórn og tíu eru enn í vinnslu.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra er með 14 frumvörp á þingmálaskrá. Tvö þeirra hafa þegar verið samþykkt sem lög frá Alþingi en tólf eru í vinnslu í ráðuneytinu.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er með ellefu frumvörp á skránni líkt og Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra. Þá er Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, með tíu frumvörp á henni en aðrir ráðherra með færri.