Eyþór Arnalds fjárfestir og einn eigenda Morgunblaðsins hefur lýst yfir framboði í oddvitakjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Eyþór er fyrrverandi sveitarstjóri Árborg. Framboðsfrestur rennur út á morgun.
Í yfirlýsingu á Facebook segir Eyþór það erfitt fyrir ungt fólk að eignast fyrstu íbúð í Reykjavík. Framboð á húsnæði sé takmarkað og verðið hátt. „Þétting byggðar á einstökum reitum hefur í raun skilað sér í hærra verði og dreifðari byggð á höfuðborgarsvæðinu. Raunfjölgun íbúða er lítil sem engin þegar tekið er tilliti til útleigu til ferðamanna.“
Þá segir Eyþór lestrarkunnáttu barna hafa hrakað í grunnskólum og að reykvísk börn eigi betra skilið. Borgin sé í miklum vanda í samgöngumálum og dýrar lausnir eins og Borgarlína muni auka á vandann með enn meiri þrengslum í gatnakerfinu. Reykjavík eigi að vera í fararbroddi í nútímalegum samgöngum en festast ekki í dýrum og þunglamalegum lausnum. Þrengingar hafi nú þegar búið til kransæðastíflu í gatnakerfi borgarinnar.
Eyþór segir stjórnkerfið dýrt og hafi stækkað mikið og flóknara sé nú en áður fyrir íbúa að fá lausn sinna mála. Tækifæri sé til að gera betur og breyta um stefnu í borgarstjórnarkosningum næsta vor.
„Ég hef einlægan áhuga á að vinna fyrir fólkið sem býr í borginni við sundin. Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ef þú ert sammála því að við getum gert betur trúi ég að við getum átt samleið í að bæta borgina okkar allra,“ segir Eyþór að lokum.
Borgarfulltrúarnir Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon hafa einnig lýst yfir framboði í oddvitakjörinu sem fram fer laugardaginn 27. janúar næstkomandi.