Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, hefur fengið margar áskoranir um að bjóða sig fram í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem fram fer 27. janúar næstkomandi.
Hún mun tilkynna um hvort hún fer fram á morgun, en í samtali við Kjarnann nú undir kvöld, sagðist hún finna fyrir miklum áhuga flokksmanna, kvenna jafnt sem karla.
Hún sagðist enn fremur spennt fyrir borgarmálunum. „Ég neita því ekki, að ég finn fyrir miklum áhuga og hef fengið áskoranir um að fara fram,“ sagði Vala.
Fyrr í dag lýsti Eyþór Arnalds, athafnamaður og fyrrverandi oddviti sjálfstæðismanna í Árborg, því yfir á Facebook síðu sinni að hann gæfi kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum í vor.
Í færslu sinni segir hann meðal annars að mikil þétting byggðar í Reykjavík hafi í reynd skilað sér í hærra verði á fasteignamarkaði og dreifðari byggð á höfuðborgarsvæðinu. „Raunfjölgun íbúða er lítil sem engin þegar tekið er tilliti til útleigu til ferðamanna,“ segir Eyþór.
Þá segir hann einnig að lestri barna í reykvískum grunnskólum hafi hrakað, og að börn í borginni eigi betra skilið.
Áður höfðu borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar í Reykjavík, tilkynnt um að þau sækist eftir leiðtogahlutverki í Reykjavík.