Heimsmarkaðsverð olíu hefur hækkað hratt og undanförnu og fór verðið á tunnu af hráolíu á Evrópumarkaði yfir 70 Bandaríkjadali í dag í fyrsta skipti síðan í desember 2014.
Frá því í júlí í fyrra hefur verðið farið úr 42,5 Bandaríkjadölum á tunnuna í 70 í dag.
Flest bendir til þess að olíuframleiðsluríkin 14 í Samtökum olíuframleiðsluríkja, OPEC, muni halda áfram að takmarka framleiðslu og framboð olíu, en eftirspurn hefur verið að aukast í heimsbúskapnum sem hefur leitt til verðhækkana.
OPEC-þjóðirnar eru Alsír, Angóla, Ekvador, Íran, Írak, Katar, Kúveit, Líbía, Nígería, Gabon, Gínea, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádí-Arabía og Venesúela.
Aðrir stórir olíuframleiðendur, eins og Rússland, Noregur, Bandaríkin og Kanada, hafa boðað frekari olíuleit og framleiðslu, en töluvert er þó í að ný vinnsla á olíu muni hafa mikil áhrif á heimsmarkaðinn.
Vaknar verðbólgudraugurinn?
Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC segir að þessi hraða hækkun olíuverðs geti ýtt undir hækkun verðlags á næstunni, og þannig stuðlað að meiri verðbólgu.
Spár gera frekar ráð fyrir að verð fari hækkandi á næstunni, þar sem eftirspurn hefur aukist í heimsbúskapnum.
Brent crude oil price hits three-year high of $70 a barrel https://t.co/Us77YAuTuQ
— Sky News (@SkyNews) January 11, 2018
Ef horft er til Íslands sérstaklega, þá hefur Seðlabanki Íslands minnst á það í sínum umfjöllunum, meðal annars í Peningamálum, að Ísland hafi notið góðs af því að lítill verðbólguþrýstingu hafi verið utan frá, meðal annars vegna lágs olíuverðs. Eftir því sem það er hærra, því hærra er verðlag á ýmsum innfluttum vörum og þá hækkar einnig kostnaður við heimilis- og fyrirtækjarekstur.
Mikill uppgangur í ferðaþjónustunni á undanförnum árum hefur leitt til þess gengi krónunnar hefur styrkst, og þannig dregið úr verðbólguþrýstingi.
Í tæplega fjögur ár hefur verðbólga á Íslandi verið undir 2,5 prósent markmiði Seðlabanka Íslands en hún mælist nú 1,9 prósent. Verðbólguhorfur hafa verið sagðar nokkuð góðar, en búist er við því að verðbólga aukist á næstu árum og verði komin upp að markmiðinu á næsta ári.