Höfuðstóll kröfu Blaðamannafélags Íslands (BÍ) í þrotabú Fréttatímans er tæpar 900 þúsund krónur. Krafan er tilkomin vegna vangreiddra stéttarfélagsgjalda. Þetta kemur fram í svari félagsins við fyrirspurn Kjarnans. Samkvæmt þeim eiga starfsmenn einnig verulegar kröfur á þrotabúið.
Samþykktar forgangskröfur lífeyrissjóða og launþega á hendur þrotabúi Fréttatímans nema um 60 milljónum króna en í heild nema lýstar kröfur á hendur félaginu 236 milljónum. Skiptastjóri búsins sagði í samtali við mbl.is, í byrjun desember síðastliðinn, að lýstar forgangskröfur hefðu í fyrstu numið 78 milljónum en þær hefðu verið lækkaðar niður í 60 milljónir.
Hann sagði að of snemmt væri að segja til um hversu miklar eignir væru til skiptanna upp í lýstar kröfur, engin afstaða hefði enn verið tekin til þeirra.
Morgundagur ehf., útgáfufélag Fréttatímans, fór í gjaldþrotameðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur síðastliðið sumar. Tilraunir til að endurreisa útgáfuna, eftir að hún var komin í rekstrarvanda, runnu út í sandinn.
Nýir eigendur keyptu allt hlutafé í móðurfélagi Fréttatímans í nóvember 2015. Gunnar Smári Egilsson leiddi þann hóp en með voru fjárfestarnir Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson og Sigurður Gísli Pálmason. Auk þess var Valdimar Birgisson áfram í eigendahópnum.
Markmiðið var að efla útgáfuna og var útgáfudögum fjölgað, en í upphafi kom Fréttatíminn út einu sinni í viku, og markaði sér stöðu á fjölmiðlamarkaði sem helgarblað. Fljótlega tók að halla undan fæti og var reksturinn kominn á endastöð í upphafi síðasta árs.
Tilkynnt var í janúar á síðasta ári að Árni og Hallbjörn hefðu selt sinn hlut í útgáfufélaginu til annarra hluthafa. Eftir viðskiptin voru hluthafarnir þrír: þeir Gunnar Smári, Sigurður Gísli og Valdimar.
Kröfulýsingarfrestur ekki útrunninn
Annað fjölmiðlafyrirtæki, Pressan, var lýst gjaldþrota í fyrra. Kröfulýsingarfrestur í bú þess er ekki útrunninn, þar sem félagið fór ekki í þrot fyrr en í desember síðastliðnum. Kristján B. Thorlacius var skipaður skiptastjóri í búinu.
Krafan um að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta kemur frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja samkvæmt Kristjáni. Skuldir eru þó við munu fleiri, eins og komið hefur fram hjá nýrri stjórn, en Ómar R. Valdirmarsson, hdl., er formaður stjórnar félagsins. Aðrir í stjórn eru Matthías Björnsson og Þorvarður Gunnarsson.
Eins og fram hefur komið, þá er grunur uppi um lögbrot í starfsemi félagsins, og hefur ný stjórn kært Björn Inga Hrafnsson, fyrrverandi stjórnarformann og stóran hluthafa Pressunnar, og Arnar Ægisson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Pressunnar, til héraðssaksóknara vegna lögbrota. Málin eru nú í rannsókn.