Áform Sjálfstæðisflokksins um að ljúka endurgreiðslu styrkja sem hann fékk í lok árs 2006 frá FL Group og Landsbanka Íslands fyrir árið 2018 hafa ekki gengið eftir. Samtals námu styrkirnir 56 milljónum króna. Þetta kemur fram í svari Þórðar Þórarinssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, við fyrirspurn Kjarnans. Ástæðuna segir hann vera tíðari kosningar en ráð var gert fyrir.
„Eins og oft hefur komið fram ákvað Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka að endurgreiða háa styrki sem hann hlaut árið 2006. Aðrir flokkar sem fengu háa styrki það ár, ákváðu að gera það ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur greitt reglulega af rekstrafé sínu,“ segir hann.
Þórður segir jafnframt að almennar kosningar séu langsamlega fjárfrekustu útgjaldaliðir stjórnmálaflokka og sem kunnugt verður gengið sveitarstjórnakosninga nú í vor eftir þingkosingar árin 2013, 2016 og 2017 auk sveitarstjórnakosninga árið 2014. Endurskoðuð fjárhagsáætlun miðar nú við að endurgreiðslum ljúki á næstu tveimur árum.
Kjarninn hafði einnig samband við Júlíus Þorfinsson, framkvæmdastjóra Stoða, sem áður hétu FL Group og spurði hann hvort og hversu mikið Sjálfstæðisflokkurinn hafi greitt til baka. Hann sagði félagið hafa ákveðið að tjá sig hvorki af eða á um málið fyrir nokkrum árum og að sú afstaða hefði ekkert breyst.
Sömu sögu er að segja af LBI ehf., sem stofnað var utan um þrotabú Landsbanka Íslands og tók við eftirstandandi eignum hans. Ársæll Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LBI, sagði að félagið hefði þá stefnu að tjá sig ekki um einstök málefni viðskiptamanna eða annarra aðila. Því væri ekki hægt að verða við beiðni um upplýsingar um endurgreiðslur Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði einn að greiða tilbaka
Styrkirnir voru veittir í lok árs 2006 og námu samtals 56 milljónum króna. Vorið 2009 sagði Bjarni Benediktsson, þá nýkjörinn formaður flokksins, að styrkirnir yrðu endurgreiddir.
Á landsfundi flokksins 2013 kom fram í máli Jónmundar Guðmarsson, þáverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, að flokkurinn hefði þegar endurgreitt um 18 milljónir króna. Samkvæmt því stóðu þá 38 milljónir króna eftir árið 2013.
Sjálfstæðisflokkurinn ákvað einn flokka að endurgreiða háa styrki sem hann fékk fyrir hrun. Samfylkingin fékk einnig styrki upp á rúmar 36 milljónir króna árið 2006 frá Kaupþingi, FL Group, Glitni, Landsbanka Íslands og Baugi. Flokkurinn sagðist hins vegar aldrei ætla að greiða styrkina til baka líkt og Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að gera.