Fimm prósent leikskólabarna eru með fæðuofnæmi og/eða fæðuóþol í Reykjavík, samkvæmt nýrri rannsókn. Enn fremur kemur fram í henni að 59 prósent leikskóla skorti viðbragðsáætlun í tengslum við fæðuofnæmi.
Þetta kemur fram í rannsókn sem birt var í Læknablaðinu í janúar síðastliðnum.
Tæpur helmingur leikskólanna, eða 41 prósent, var með viðbragðsáætlun til að fara eftir ef barn skyldi fyrir slysni fá ofnæmisvaka með fæðunni. Aðeins 55 prósent leikskóla með barn með bráðaofnæmi sögðu allt starfsfólk sitt þekkja einkenni ofnæmiskasts og aðeins 64 prósent þeirra sögðu starfsfólk sitt upplýst og þjálfað í viðbrögðum við ofnæmiskasti. Engin marktæk tengsl voru á milli menntunar leikskólastjóra, starfsmanns í eldhúsi og fjölda barna á leikskóla og hvernig staðið var að málum barna með fæðuofnæmi/-óþol.
Mjólkuróþol algengast
Algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols er 5 prósent, bráðaofnæmis 1 prósent og fjölfæðuofnæmis 1 prósent, samkvæmt læknisvottorðum. Mjólkuróþol var algengast, eða 2 prósent, en þar næst mjólkurofnæmi og eggjaofnæmi. Allir leikskólar nema einn voru með börn með fæðuofnæmi og/eða -óþol.
Í rannsókninni segir að þegar fjallað er um fæðuóþol eigi það oftast við um mjólkuróþol og glútenóþol. Mjólkuróþol stafi af því að einstaklingur geti ekki brotið niður mjólkursykur í meltingakerfinu1 en glútenóþol er sjálfsofnæmissjúkdómur.
Segir jafnfram að markmið þessarar rannsóknar hafi verið að kanna algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols hjá börnum í leikskólum Reykjavíkur. Einnig hafi markmið rannsóknarinnar verið að kanna hversu vel leikskólar tryggja að umhverfi barna með fæðuofnæmi og/eða -óþol sé öruggt. Að lokum hafi verið kannað hvort innri þættir leikskólans hefðu áhrif á öryggi barna með fæðuofnæmi, svo sem menntun leikskólastjóra, starfsmanns í eldhúsi og fjöldi barna á leikskólanum.
Spurningalisti útbúinn fyrir þessa rannsókn var sendur til 65 leikskóla Reykjavíkurborgar árið 2014. Svör fengust frá 49 leikskólum með 4225 börn. Algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols var metið út frá fjölda læknisvottorða sem afhent voru til leikskólanna. Lýsandi tölfræði var notuð til að meta hvort ferlar væru til staðar fyrir börn með fæðuofnæmi/-óþol á leikskólum og hvort þeir tengdust menntun leikskólastjóra, menntun starfsmanns í eldhúsi og fjölda barna á leikskólanum.
Næst flest tilfelli gerast í skóla eða daggæslu
Algengi fæðuofnæmis hjá evrópskum börnum á aldrinum 0 til 18 ára spannar allt frá 2 til 28 prósent á árunum 2003 til 2005. Munur á aðferðum rannsakenda við upplýsingaöflun á hvort fæðuofnæmi sé til staðar er mikill. Í sumum tilvikum er algengi fæðuofnæmis byggt á frásögn foreldra en í öðrum tilvikum á húðprófi, blóðprófi og/eða tvíblindum þolprófum. Íslensk rannsókn á 0 til 1 árs börnum staðfesti fæðuofnæmi hjá 1,9 prósent íslenskra barna með tvíblindu þolprófi en rannsóknin var gerð á árunum 2005 til 2008. Til samanburðar sýndi dönsk rannsókn á þriggja ára börnum fyrir aldamótin að 3,4 prósent barna voru með fæðuofnæmi en algengið lækkaði í 1,2 prósent við 6 ára aldurinn, greint með tvíblindu þolprófi, segir í rannsókninni.
„Þegar einstaklingar eru með ofnæmi fyrir tveimur eða fleiri fæðutegundum kallast það fjölfæðuofnæmi. Í danskri rannsókn þar sem börnum var fylgt eftir frá fæðingu til 6 ára aldurs greindust 3,7 prósent barna með fjölfæðuofnæmi greint með þolprófi. Í daglegu tali eru þeir sem eiga á hættu að fá ofnæmislost sagðir vera með bráðaofnæmi. Helsta ástæða ofnæmislosts er neysla fæðutegundar, eða 33 prósent. Hjá börnum má einnig rekja meirihluta tilfella, eða 56 til 84 prósent, ofnæmislosts til fæðuofnæmis.
Áströlsk rannsókn sem skoðaði innkomur á bráðamóttöku barna vegna ofnæmislosts greindi frá því að flest tilvik, 48 prósent, verða á heimili barnsins en næst algengasti staðurinn er skólinn og daggæslan, eða 9 prósent. Ofnæmislost geta verið banvæn en það er sjaldgæft. Það er því nauðsynlegt að gerð sé viðbragðsáætlun um hvernig bregðast skuli við ofnæmiskasti barns hjá aðilum/stofnunum sem bera ábyrgð á börnum á dagvinnutíma.“
Starfsfólk grunnskóla í Reykjavík meðvitaðara en annars staðar
Í rannsókn sem meðal annars var gerð á Íslandi kom fram að starfsfólk grunnskóla í Reykjavík er almennt meðvitaðra um fæðuofnæmi en starfsfólk skóla hinna landanna sem tóku þátt í rannsókninni. Þannig greindu 85 prósent íslensku skólanna frá því að starfsfólk sitt væri frætt um einkenni fæðuofnæmis. Einnig höfðu 44 prósent grunnskólanna frætt starfsfólk sitt um hvernig ætti að lesa innihaldslýsingar og 91 prósent skólanna voru með adrenalínpenna á staðnum.
Aðgerðaráætlun við alvarlegu ofnæmisviðbragði í skólum var til staðar í 67 prósent tilvika þar sem gert er ráð fyrir að starfsmaður geti notað adrenalínpenna. Stjórnendur fjögurra skóla vildu hins vegar að annað hvort væri hringt í foreldrana eða á sjúkrabíl í stað þess að nota adrenalínpenna.
Höfundar vita ekki til þess að rannsóknir hafi verið gerðar á Íslandi sem sýna hvernig staðið er að málefnum barna með fæðuofnæmi/-óþol innan leikskóla.