Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line hefur sent Samkeppniseftirlitinu kæru þar sem fyrirtækið telur að Isavia hafi misnotað einokunaraðstöðu sína á Keflavíkurflugvelli með því að ætla sér að taka gjald af hópferðabílum sem starfi við flugvöllinn. Gray Line telur að gjaldtakan sé margfalt hærri en eðlilegt geti talist og að hún stríð gegn hagsmunum neytenda. Fyrirtækið vill að Samkeppniseftirlitið stöðvi fyrirhugaða gjaldtöku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gray Line. Isavia er í eigu íslensku ríkisins.
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, segir að um sé að ræða ofurgjaldtöku í skjóli einokunar sem lendi á engum öðrum en flugfarþegum. „Gera má ráð fyrir að fargjaldið þurfi að hækka um 30-50 prósent hjá öllum hópferðafyrirtækjunum til að Isavia fái sitt. Farþegar fá ekkert meiri eða betri þjónustu. Isavia tekur þá einfaldlega í gíslingu og heimtar lausnargjald svo þeir komist frá flugstöðinni.“
Í kæru fyrirtækisins segir að á Heathrow flugvelli í London sé tekið 3.900 króna gjald fyrir stóra hópferðabíla sem sækja farþega. „Isavia ætlar hins vegar frá og með 1. mars næstkomandi að taka 19.900 kr. fyrir hvert skipti sem stór rúta sækir farþega í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Gjald Isavia er fimmfalt hærra en á Heathrow. Á flugvöllum á borð við Kaupmannahöfn, Billund og Stokkhólm og fleiri á Norðurlöndunum er ekkert slíkt gjald tekið og á Gatwick flugvelli er það 2.400 kr.“
Gjaldtakan er fyrir nýtingu á svokölluðu fjarsvæði, sem liggur ekki upp við flugstöðina. Hún kemur til viðbótar við það sem tvö hópferðarfyrirtæki greiða fyrir að vera með aðstöðu upp við flugstöðina, en þau greiða rúmlega 300 milljónir króna á ári til Isavia fyrir þá aðstöðu.
Forsvarsmenn Gray Line telja að skyndileg og mikil hækkun stefni viðskiptum fyrirtækisins á svæðinu í hættu „svo óbætanlegur skaði geti hlotist af“.