„Hefðbundin starfsheiti eru á góðri leið með að verða útdauð,“ segir í grein Lilju Daggar Jónsdóttur, hagfræðings og MBA frá Harvard, í nýjustu útgáfu Vísbendingar.
Í grein hennar segir að sífellt fleiri störf krefjist þverfaglegrar færni, þar sem ólíkum hlutum er blandað saman við úrlausn vandamála.
Miklar tækniframfarir, og innleiðing gervigreindar í hina ýmsu geira, hefur ýtt undir þá þróun á vinnumarkaði að fyrirtæki geri kröfur um að starfsmenn búi yfir þverfaglegri færni í mörgum tilvikum.
„Tækni er undirstaða í daglegu
lífi og starfi okkar flestra og ein afleiðing
þess er að línurnar sem aðskilja ólík
störf hafa verið máðar út. Sífellt fleiri
störf krefjast þess að einstaklingar blandi
saman þverfaglegri færni. Í dæmigerðri
starfslýsingu hugbúnaðarverkfræðings
má nú auk forritunar sjá áherslu
lagða á almenna hönnun, skilning á
markaðsvinnu og viðmótshönnun.
Þverfaglegar færnikröfur ná jafnframt
langt út fyrir tæknigeirann. Í ýmsum
hönnunarstörfum og viðskiptastörfum
má nú til dæmis sjá færnikröfur sem
áður hefðu aðeins tilheyrt tölvunarfræði,
svo sem færni til flókinnar gagnavinnu
eða forritunar. Í hefðbundnum
tæknistörfum er jafnframt síaukin
áhersla lögð á „mýkri“ færni, svo sem
að starfsfólk sé vel skrifandi, hæft í
samskiptum og skapandi,“ segir Lilja Dögg í greininni.
Í greininni ber hún meðal annars saman starfsauglýsingar hjá Tesla Motors annars vegar, og General Motors (GT) hins vegar, en Tesla gerar allt aðrar færnikröfur til vélaverkfræðinga heldur en GT.
Hún gerir líka að umtalsefni slæma stöðu kvenna hjá tæknifyrirtækjum, á alþjóðamörkuðum og á Íslandi, og segir mikil tækifæri felast í því að gefa konum tækifæri, sem búi yfir fjölbreyttri færni. „Í Bandaríkjunum gegna konur um 25% starfa í upplýsingatækni og 28% hjá hugbúnaðarfyrirtækjum. Á Íslandi er erfitt að finna sambærilegar tölur en ætla má að konur gegni 10-20% starfa innan tækjafyrirtækja. Það er slæm staða og margt sem þarf að koma til svo breyting verði á. Færni getur hér, eins og í mörgu öðru er snýr að vinnumarkaði, verið lykill að breytingum,“ segir Lilja Dögg.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér, og velja þá leið sem hentar hverjum og einum áskrifanda.