Ójármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóð eru þungar í skauti í rekstri ríkisins. Núverandi fyrirætlanir, um að greiða inn á skuldina í hinu opinbera kerfi, eru mikil framför frá fyrri árum en betur má ef duga skal.
Þetta segir Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, í grein í nýjustu útgáfu Vísbendingar, þar sem fjallað er um fjármögnun lífeyriskerfisins sem snýr að hinu opinbera. Upphæðirnar eru háar, en kerfinu má gróflega skipta up í gamla og nýja kerfið. Hann segir sérstaklega mikilvægt að huga að fjármögnun skuldbindinga í eldra kerfinu.
„Ábyrgðin á eldra lífeyriskerfi hins opinbera stendur eftir sem áður. Starfsemi gömlu sjóðanna er enn í fullum gangi. Hluti opinberra starfsmanna hefur enn aðild að þessum sjóðum og þeir eiga eftir að greiða út lífeyri í fjölda ára. Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs gagnvart þessum sjóðum voru 611 ma.kr. í lok ársins 2016 og höfðu hækkað úr 508 ma.kr. frá árslokum 2015, sem svarar 20 prósent hækkun á milli ára. Sé miðað við landsframleiðslu hækkuðu þessar skuldbindingar úr 23 prósent í 25 prósent á milli 2015 og 2016. Mest áhrif á hækkun skuldbindinga hafa launahækkanir, breytingar á tryggingafræðilegum forsendum og yfirtökur ríkissjóðs á skuldbindingum, t.d. hjúkrunarheimila og sjálfseignarstofnana. Á allra síðustu árum hafa laun hækkað mikið og afleiðingar kjarasamninga því haft veruleg áhrif á stöðu þessara sjóða. Þróun launa opinberra starfsmanna veldur því stöðugt ákveðinni óvissu hvað þróun lífeyrisskuldbindinga þessara sjóða varðar,“ segir Ari meðal annars í grein sinni.
Íslenska lífeyrissjóðakerfið hefur vaxið hratt, sé horft til heildareigna þess, á undanförnum árum. Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands, frá 8. janúar, þá námu heildareignir lífeyrissjóðakerfisins 3.837 milljörðum króna í lok nóvember í fyrra.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér, og velja þá leið sem hentar hverjum og einum áskrifanda.