Árið 2017 notuðu 79 prósent fyrirtækja, með að lágmarki tíu starfsmenn, á Íslandi samfélagsmiðla. Það er hæsta hlutfall í Evrópu en samfélagsmiðlar voru notaðir af 47 prósent fyrirtækja í Evrópusambandsríkjunum 28 að meðaltali.
Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar í morgun.
Samfélagsmiðlar eru flokkaðir eftir tegund miðils og á Íslandi eru 77 prósent fyrirtækja með samskiptasíður, 17 prósent með vefsíður til að deila margmiðlunarefni, 16 prósent með bloggsíður eða tilkynningasíður og 3 prósent með svokallaðar wiki-síður.
Þá eru 82 prósent fyrirtækja á Íslandi með eigin vef en 63 prósent eru hvort tveggja með eigin vef og á samfélagsmiðlum.
Í nóvember birti Hagstofa Íslands niðurstöður úr upplýsingatæknirannsókn sinni frá árinu 2017 en Hagstofa Evrópusambandsins hefur nú gefið út niðurstöður allra þeirra landa sem gerðu rannsóknina á síðasta ári. Töflu um notkun fyrirtækja á samfélagsmiðlum og fjölda fyrirtækja með eigin vef í Evrópu má nú finna á vef Hagstofunnar, ásamt hlekk í töflur Eurostat.
Veitingageirinn notar samfélagsmiðla mest til að þróa ímynd sína
Kjarninn fjallaði um samfélagsmiðlanotkun fyrirtækja í nóvember síðastliðnum í frétt um niðurstöður Hagstofunnar. Þar kom fram að veitingasala- og þjónusta hefðu notað samfélagsmiðla mest, eða 89 prósent, til að þróa ímynd fyrirtækisins eða markaðssetja vöru. Minnst hefðu byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð notað samfélagsmiðla í sama tilgangi eða 29 prósent.
Tveir þriðju hlutar allra fyrirtækja notuðu samfélagsmiðla til að þróa ímynd sína eða markaðssetja vörur.
Enn fremur kom fram að mikil aukning hefði verið á notkun samfélagsmiðla í fyrirtækjum.
Á síðasta ári voru 82 prósent fyrirtækja hér á landi með eigin vef. Þriðjungur þeirra bauð upp á að vörur eða þjónusta sé pöntuð af vefnum, mismikið eftir atvinnugreinum, flest í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum.
Um þriðjungur notar samfélagsmiðla til ráðninga
Fjórðungur fyrirtækja tók við pöntunum á síðasta ári í gegnum vef eða smáforrit, flest í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum.
Um þriðjungur notaði samfélagsmiðla til að ráða fólk til starfa, en það var nokkur fjölgun síðan árið 2013 þegar hlutfallið var 19 prósent.
Rúmlega helmingur fyrirtækja notaði samfélagsmiðla til að taka við ábendingum eða fyrirspurnum og svara þeim. Það var einnig fjölgun frá árinu 2013 þegar hlutfallið var 30 prósent.