Þrátt fyrir að það hafi hægst á íbúðaverðhækkun að undanförnu, þá er hefur fasteignaverð á Íslandi hækkað meira en í flestum öðrum þróuðum ríkjum, á undanförnu ári.
Hækkunin er 13,7 prósent, en algengt meðaltal í ríkjum þar sem mesta hækkunin hefur verið, er á bilinu 5 til 10 prósent.
Sem dæmi má nefna, þá hækkaði fasteignaverð um tæplega 6 prósent í Noregi í fyrra, en á undanförnum árum hefur fasteignaverð þar hækkað mikið, einkum á borgarsvæðum í landinu.
Í Svíþjóð hafa sést merki um verðlækkun, einkum í Stokkhólmi, en þar hefur verð lækkað um fjögur prósent á undanförnum sex mánuðum.
Í desember síðastliðnum hækkaði verð á höfuðborgarsvæðinu um 0,21 prósent, miðað við fyrri mánuð, og segir í umfjöllun Íbúðalánasjóðs, að hækkunin teljist hófleg.
Hækkunin hefur verið meiri á einbýlishúsum en íbúðum í fjölbýli, en á síðustu tólf mánuðum hefur verð á sérbýli hækkað um 16,5 prósent á höfuðborgarsvæðinu, en 12,6 prósent á íbúðum í fjölbýli.
Flestar spár greinenda gera ráð fyrir áframhaldandi hækkun fasteignaverðs á þessu ári. Þannig spáir Íslandsbanki 12 prósent hækkun fasteignaverðs, og Seðlabanki Íslands gerir ráð fyrir áframhaldandi verðhækkun á þessu ári, þó að það muni hægjast um frá fyrri árum.
Tölur um veltu á markaðnum benda til meiri hægagangs nú en fyrir ári síðan, en í desember var velta í viðskiptum um 20 prósent minni en árið 2016. Í umfjöllun ÍLS segir að þróun fasteignaverðsins og fjöldi viðskipta bendi til þess að meira jafnvægi sé að komast á markaðinn, frá því að mestu verðhækkanirnar á markaðnum voru að sjást.