„Það er dapurlegt að fjármálaráðherra telji að skattalækkanir séu ekki brýnasta málið nú vegna efnahagsuppsveiflunnar.“ Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í grein sem hann birtir á vef samtakanna í dag. Tilefnið eru ummæli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins sem fram fór í gær. Þar sagði Bjarni að á tíma hraðrar efnahagsuppsveiflu væru almennar skattalækkanir ekki brýnasta verkefni stjórnvalda. Því væru ekki áætlanir um skattalækkanir í kortunum.
Í grein sinni segir Halldór að á toppi hagsveiflu eigi að skapa rými til að lækka skatta. Það auðveldi fólki að greiða niður húsnæðislán og spara til mögru áranna. „ Enn og aftur virðast stjórnmálamenn telja að fjármunum landsmanna sé betur borgið í þeirra umsjón en hjá þeim sem afla þeirra. Ríki og sveitarfélög hafa stundað þensluhvetjandi fjármálastefnu síðastliðin ár, skatttekjur hafa þanist út í miklum uppgangi í efnahagslífinu en útgjöld hins opinbera hafa aukist jafnharðan.“
Halldór segir að það sé dapurlegt að Bjarni Benediktsson telji að skattalækkanir nú séu ekki brýnar. „Það er mikilvægt að minna á að af hverjum 100 krónum sem verða til í efnahagslífinu er 45 krónum ráðstafað af hinu opinbera skv. Hagstofu Íslands. Útsvarstekjur sveitarfélaga hafa aukist um 53 milljarða á fjórum árum en hverri krónu er eytt jafnharðan. Tekjur af fasteignagjöldum eru sér kapítuli. Staðan er þessi: Nánast hvergi innan OECD dregur hefur hið opinbera hærri skatttekjur en á Íslandi. Í núverandi uppsveiflu hefur nánast engin áhersla verið á aðhald eða forgangsröðun í ríkisrekstri heldur fyrst og fremst á ráðstöfun þeirra gífurlegu fjármuna sem hinu opinbera hefur áskotnast.“
Hann segir skilaboð atvinnulífsins til stjórnvalda einföld, í einni lengstu uppsveiflu Íslandssögunnar þurfi að draga úr útgjöldum til að lækka álögur á landsmenn. „Slík nálgun reynir bæði á framtíðarsýni og stefnufestu. Að halda áfram á sömu braut mun óhjákvæmilega kalla á sársaukafullan niðurskurð þegar sömu tekjustofnar dragast saman í næstu niðursveiflu. Rétt‘upp hönd sá sem trúir því að í niðursveiflunni skapist dauðafæri til skattalækkana.“