Staðfestar niðurstöður sýnatöku úr borholum Veitna á vatnstökusvæðinu í Heiðmörk sýna eðlilegt ástand á neysluvatni Reykvíkinga. Sýnin voru tekin þann 15. janúar en tvo til þrjá daga tekur að greina þau. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.
Í byrjun viku var grein frá því að gerlar hefðu mælst í neysluvatni á ýmsum stöðum höfuðborgarinnar og á Seltjarnarnesi nema Grafarvogi, Norðingaholti, Úlfarsárdal, Kjalarnesi og Mosfellsbæ. Engin mengun hafði hins vegar mælst í neysluvatni í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.
Í tilkynningu frá Veitum, sem send var út á mánudag, sagði að í varúðarskyni mælti Heilbrigðiseftirlitið „með því að neysluvatn í vissum hverfum borgarinnar sé soðið ef um neytendur er að ræða sem eru viðkvæmir t.d. með lélegt ónæmiskerfi, ungabörn, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma.“
Daginn eftir, 16. janúar, hélt stjórnskipuð samstarfsnefnd um sóttvarnir fund um þá mengun sem mælst hefur í neysluvatni á ýmsum stöðum höfuðborgarinnar og á Seltjarnarnesi. Niðurstaða fundarins var sú að mælingar bendi ekki til þess að hætta sé talin á heilsufarslegum afleiðingum við neyslu vatnsins. Því taldi samstarfsnefndin ekki þörf á að almenningur á svæðum þar sem mengunin mældist sjóði vatn fyrir neyslu og að ekki sé þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum. Þá væri óhætt að nota neysluvatnið í matvæla- og drykkjarframleiðslu.
Í frétt sem birt var á heimasíðu embættis landslæknis vegna þessa sagði að mengunin hefði verið „einangrað fyrirbæri í kjölfar mikilla vatnavaxta sem leiddi til að gæði neysluvatns hefur nú í nokkra daga ekki staðist ýtrustu gæðakröfur. Niðurstöður mælinga á vatninu benda til að ekki er talin hætta á heilsufarslegum afleiðingum við neyslu þess á ofangreindum svæðum.“