Á árinu 2017 voru kyrrsettar og haldlagðar eignir undir rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að fjárhæð alls ríflega 2,2 milljarðar króna í alls 15 málum. Í langflestum tilvikum er um að ræða kyrrsetningar tollstjóra til tryggingar væntanlegri skattkröfu, fésekt og sakarkostnaði. Þetta kemur fram í frétt á vef skattrannsóknarstjóra sem birt var í dag.
Þar segir að á síðasta ári hafi 41 máli verið vísað til héraðssaksóknara til ákærumeðferðar í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra, og að skattrannsóknarstjóri hafi farið fram með sektarkröfu fyrir yfirskattanefnd í alls 36 málum á árinu vegna ætlaðra skattalagabrota. Í 22 málum var gengist undir sekt hjá skattrannsóknarstjóra.
„Ætluð undanskot eru af margvíslegum toga og mál misjöfn að umfangi. Ætlaður undanskotinn skattstofn er allt frá milljónum króna upp í á sjöunda hundrað milljóna kr. í einstökum málum,“ segir í fréttinni.
Alls 66 mál felld niður
Héraðssaksóknari felldi niður alls 66 mál á síðasta ári sem skattrannsóknarstjóri hafði kært til hans. Ástæðan var sú að málsmeðferð þeirra hjá annars vegar skattyfirvöldum og hins vegar héraðssaksóknara var ekki nægilega samtvinnuð í efni og tíma, aðallega vegna þess að þeim var slegið á frest vegna þess að beðið var niðurstöðu máls sem var til meðferðar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu.
Á meðal þeirra mála sem felld voru niður eru mál einstaklinga sem komu fyrir í Panamaskjölunum svokölluðu. Og stór hluti málanna snýst um einstaklinga sem geymdu fjármuni utan Íslands til að komast hjá skattgreiðslum. Búist er við því að enn fleiri mál tengd ætluðum skattsvikum verði felld niður á næstunni, en alls voru 152 mál til meðferðar hjá embætti héraðssaksóknara. Alls er skattstofninn í öllum þeim málum yfir 30 milljarðar króna.