Eyþór Arnalds frambjóðandi í oddvitakjöri Sjálfstæðisflokksins vill að borgin reisi íbúabyggð í Örfirisey. Hann á sjálfur fyrirtæki í rekstri svæðinu en telur hagsmunatengslin ekki þannig að honum sé ókleift að vera talsmaður uppbyggingar á svæðinu.
Í aðsendri grein frá Eyþóri í Fréttablaðinu í gær kemur fram að hann telji þéttingu byggðar í Reykjavík hafa mistekist. Þannig hafi borgarstjórnarmeirihlutinn undanfarin ár unnið að þéttingu byggðar í miðborginni þar sem ætla mætti að hefði þar af leiðandi orðið umtalsverð íbúafjölgun. Hins vegar hafi fólki fækkað þar um tvö prósent á einu ári og um níu prósent á fimm árum. Vísar hann þar í fréttaskýringu Kjarnans frá því í apríl í fyrra þessu til stuðnings.
Í fréttaskýringu Kjarnans kemur einnig fram að flestir greiningaraðilar séu reyndar sammála um að útleiga íbúða til ferðamanna hafi talsverð ruðningsáhrif og það sé mest í miðborginni enda séu þar flestar íbúðir í útleigu. Í greiningu Arion banka frá því í janúar í fyrra sagði að allt að 3.200 íbúðir eru herbergi væru til leigu á Airbnb eða annarri heimagistingu.
Eyþór leggur til „nýja nálgun“ í þéttingu byggðar, að leyfa eigi háhýsi í Örfirisey, sem margir þekkja einfaldlega sem Grandahverfið, líkt og gert var í Skuggahverfi. Eyþór segir mögulegt að byggja 10-15 þúsund manna byggð í áföngum í Örfirisey og þannig létta á ójafnvægi umferðar og vera valkostur fyrir fólk sem vill búa á miðsvæði.
Frambjóðandinn á hins einhverra óbeinna hagsmuna að gæta á svæðinu. Hann á til að mynda meirihluta í Whales of Iceland sem rekur hvalasýningu á Grandanum. Dótturfélag Eyþórs Special Tours keypti sýninguna í lok síðasta árs, gerir einnig út á ferðamannasiglingar frá Gömlu höfninni í Reykjavík auk þess að eiga kaffihúsið Reykjavík Röst Bistro við sömu höfn. Að sögn Eyþórs á hann þó hvorki húsið né lóðina sem sýningin stendur á.
Í samtali við Kjarnann segir Eyþór að í grein sinni sé hann aðeins að vísa til svokallaðs tankasvæðis í Örfirisey, það er það svæði þar sem olíutankarnir standa, en ekki alls Grandasvæðisins. Tankasvæðið er í eigu Faxaflóahafna.
Áður hefur verið rætt um framtíð olíutankanna á þessu svæði, til að mynda var árið 2013 framkvæmd könnun fyrir Faxaflóahafnir meðal fyrirtækja við gömlu höfnina þar sem fram kom að meirihluti þeirra vildu tankana burt á þeim forsendum að olíuflutningar þaðan væru hættulegir.
Eyþór vill ekki meina að hann sé með of mikilla hagsmuni í húfi til að verða vanhæfur talsmaður uppbyggingar í Örfirisey. Hvalasýningin myndi ekkert græða á byggð á svæðinu, en 95 prósent gesta hennar séu útlendingar.
Hann segir uppbyggingu á svæðinu hafa verið til umræðu fyrir um 12 árum síðan. „Skuggahverfið er dæmi um vel heppnaða þéttingu á svæði sem áður var bara iðnaðarsvæði við sjóinn. Þetta myndi auka framboðið fyrir ungt fólk, það vantar fleiri íbúðir í vestari hluta borgarinnar til að létta á umferðinni austur síðari hluta dags,“ segir Eyþór.