Gunnar Atli Gunnarsson lögfræðingur og fyrrverandi fréttamaður hefur verið ráðinn aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Gunnar Atli er stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði, með Mag. Jur. í lögfræði frá Háskóla Íslands 2015 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 2017. Hann hefur meðal annars starfað sem lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu og sem fréttamaður á Stöð 2. Undanfarið hefur hann starfað sem lögmaður hjá Landslögum lögfræðistofu en lætur nú af störfum þar til að gegna starfi aðstoðarmanns. Gunnar Atli er fæddur árið 1988. Sambýliskona hans er Brynja Gunnarsdóttir, tannlæknir, og eiga þau tvö börn.
Fyrir hjá Kristjáni Þór Júlíussyni ráðherra sem aðstoðarmaður er Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir stjórnmálafræðingur, sem starfaði með Kristjáni Þór bæði í heilbrigðis- og menntamálaráðuneytunum.
Alls eru ellefu ráðherrar í ríkisstjórn Íslands. Hver og einn þeirra má vera með tvo aðstoðarmenn auk þess sem heimild er til staðar samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur. Einn þeirra er sérstakur upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar sem starfar innan forsætisráðuneytisins. Ekki þarf að auglýsa aðstoðarmannastöður heldur eru þeir sem sinna þeim störfum valdir af hverjum ráðherra fyrir sig, enda oftast um að ræða nánustu samstarfsmenn ráðherra á meðan að hann gegnir embætti.