Hagvöxturinn í Kína, fjölmennasta ríki heims með 1,4 milljarða íbúafjölda, var meiri á síðasta ári en spár og markmið yfirvalda gerðu ráð fyrir. Hann var 6,9 prósent en spár höfðu gert ráð fyrir 6,5 prósent, samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.
Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 2010 sem hagvaxtarprósentan hækkar á milli ára.
Graphic charting China's yearly and quarterly growth pic.twitter.com/AMw0DKVOgn
— AFP news agency (@AFP) January 18, 2018
Þykir þetta benda til þess að heimsbúskapurinn sé jafnvel að rétt enn meira úr kútnum en greinendur höfðu þó gefið til kynna.
Útflutningur var meiri en gert var ráð fyrir, og þá höfðu gífurlega umfangsmiklar innviðafjárfestingar, ekki síst á sviði orkugeira og samgangna, jákvæð áhrif á hagvöxt.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur þó að undanförnu bent á að mikil áhætta hafi safnast upp í efnahagslífinu í Kína, einkum vegna aukinna skulda og vanskila í bankakerfinu.
Í álagsprófum sem framkvæmd voru á 33 bönkum í landinu bentu niðurstöðurnar til þess að 27 bankar þyrftu meira fjármagn.
Í skýrslu AGS var sagt að skuldastaðan í Kína, ekki síst hjá bönkum, sveitarfélögum og húsnæðislánasjóðum, væri komin á „hættulegt stig“. Yfirvöld hafa gert lítið úr þessu, og sagt að þau hafi fulla stjórn á hagstjórninni, og að vandamálin muni ekki komast á óviðráðanlegt stig.
AGS hefur þó krafist þess, að gripið verði til aðgerða og hugað verði að helstu áhættuþáttum í hagkerfinu, til að draga úr líkum á áföllum.