Ríkissjóður ætlar að láta vinna yfirmat á verðmæti lands á Geysissvæðinu sem ríkið keypti af sameigendum sínum í október 2016. Matið verður bindandi fyrir báða aðila kaupsamningsins.
Ríkið keypti eignarhlutinn, svæði sem umlykur séreignarland ríkisins innan girðingar þar sem hverirnir Geysir og Strokkur eru meðal annars. Málið var tekið fyrir á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Við kaupin árið 2016 náðist ekki samkomulag um verðmæti eignarhlutans, og því var ákveðið að dómkvöddum matsmönnum yrði falið að úrskurða um kaupverð sameignarlandsins. Í niðurstöðu þeirra sem skilað var 1. desember síðastliðinn kemur fram að lagt hafi verið til grundvallar að ekki væri annað fært en að miða verðmæti landsins út frá því að hægt væri að innheimta aðgangseyri á svæðinu. Markaðsverð landsins að mati hinna dómkvölddu matsmanna, 1.113 milljónir króna, er því fundið út frá þessum forsendum.
Er það mat ríkisins að ekki væri annað forsvaranlegt í stöðunni en að óska eftir fimm manna yfirmati á verðmætinu sem báðum samningsaðilum er heimilt að gera. Gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir síðar á þessu ári.
Ríkið hefur um margra ára skeið átt í viðræðum við landeigendur á svæðinu um hugsanleg kaup ríkisins á eignarhluta þeirra. Eignarhlutur ríkisins í sameignarlandinu fyrir kaupin var 25,28 prósent en sameigenda 74,72 prósent. Um er að ræða svæði alls 19,9 hektara að stærð, innan þess svæðis átti ríkið sem séreign um 2,3 hektara lands fyrir miðju svæðisins þar sem hverirnir eru staðsettir. Það sem eftir stendur, um 17,6 hektarar var sameign ríkisins og Landeigendafélags Geysis ehf.
Við undirritun samningsins tók ríkið formlega við umráðum alls lands sameigenda innan girðingar við Geysi. Þar með var ríkið orðið eigandi alls svæðisins, en átti fyrir stóran hlut aðliggjandi landsvæða utan girðingar.