Í skýrslu peningastefnunefndar til Alþingis, sem birt hefur verið á vef Seðlabankans, kemur fram að þörf sé á miklu aðhaldi í ríkisfjármálunum á næstunni. Tölur þjóðhagsreikninga frá því í desember hafi sýnt meiri spennu í hagkerfinu, og meiri vöxt eftirspurngar, en búist hafði verið við í nóvemberspá bankans. „Nefndarmenn voru einnig sammála um að aðhaldið þyrfti að vera meira en ella slakni á aðhaldi í ríkisfjármálum á þessu ári miðað við það sem gert var ráð fyrir í nóvember. Voru nefndarmenn sammála um að peningastefnan myndi á komandi misserum ráðast af framvindu efnahagsmála, þ.m.t. stefnunni í opinberum fjármálum og niðurstöðu kjarasamninga.“
Í skýrslunni er enn fremur fjallað um verðbólguhorfur, og gerir spá Seðlabankans ráð fyrir að verðbólgan þokist upp á við á næstu misserum í átt að 2,5 prósent verðbólgumarkaðinu, en verðbólga mælist nú 1,9 prósent. Meginvextir bankans eru nú 4,25 prósent.
Það sem helst hefur haldið lífi í verðbólgunni, ef svo má segja, er mikil hækkun húsnæðisverðs á síðustu árum. Merki hafa þó komið fram um það að undanförnu, að það sé tekið að hægja á verðhækkunum, en á undanförnu ári hefur húsnæðisverð hækkað um tæplega 13 prósent. Í júlí í fyrra var hækkunin á ári rúmlega 20 prósent, sem þá var mesta og hraðasta hækkun húsnæðisverðs meðal þróaðra ríkja í heiminum.
Tímabil langvarandi gengishækkunar þekkjast víða https://t.co/bjFjZKnMU5 bls. 49 #Peningamál pic.twitter.com/iFNSqsl8nm
— Seðlabanki Íslands (@sedlabanki_is) November 22, 2017
Atvinnuleysi mælist nú 2 til 3 prósent, og virðist mikil spenna á vinnumarkaði. Það er vöntun á vinnuafli víða, ekki síst í byggingargeiranum og í ferðaþjónustu.
Í skýrslu peningastefnunefndar er enn fremur fjallað um þróun mála þegar kemur að almennu verðlagi. Er því meðal annars velt upp hvort aukin samkeppni í verslun hafi haft áhrif á verðlagsþróun. „Aukin samkeppni við netverslun og innkoma alþjóðlegra smásölurisa á innlendan smásölumarkað kunna að hafa dregið eitthvað úr áhrifum gengislækkunar krónunnar sl. sumar á verðlag. Verð innlendrar vöru hafði í desember hækkað um 1% milli ára en hafði lækkað um 1,6% milli ára í júní sl. Innlendur verðbólguþrýstingur hefur því aukist á þann mælikvarða að undanförnu,“ segir í skýrslunni.
Í peningastefnunefndinni eru Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður, Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur, Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við HÍ, og Katrín Ólafsdóttir, lektor í hagfræði við HR.