Ógnvekjandi faraldur er nú í Bandaríkjunum, þar sem þeim fjölgar sífellt sem deyja úr of stórum skammti vímuefna.
Í fyrra létust um 71 þúsund einstaklingar í Bandaríkjunum úr of stórum skammti vímuefna, en það er fjölgun um sjö þúsund manns frá árinu 2016, samkvæmt upplýsingum Heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna (NIH).
Faraldur
Segja má að algjör faraldur sé nú ríkjandi í Bandaríkjunum vegna þeirrar gífurlegu fjölgunar dauðsfalla sem rekja má til vímuefna, og aukningin er ekki síst vegna mikillar fjölgunar einstaklinga sem neyta sterkra ópíóíða (morfín og oxycontine).
Á einungis fimm árum, 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017, hafa dáið 280 þúsund einstaklingar í Bandaríkjunum úr of stórum skammti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þegar lýst því yfir að vandinn sé meðhöndlaður sem neyðarvandi, innan stofnanna Bandaríkjastjórnar sem koma að málum með einum eða öðrum hætti. Borgir Bandaríkjanna hafa einnig gripið til meira samstarf með heilbrigðisyfirvöldum, meðal annars til að koma meira til móts við sprautufíkla.
Ógnvekjandi aukning á Íslandi
Aukning á dauðsföllum meðal ungra fíkla á Íslandi hefur einnig verið „ógnvekjandi“ að mati Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis, en hann fjallaði um stöðu mála á Læknadögum.
Samtals létust 32 áfengis- og vímuefnasjúklingar sem voru undir fertugu á árinu 2017, þar af voru 14 yngri en 30 ára. Á árinu 2016 voru sömu tölur 27 og 9. Þetta eru hræðilegar tölur og miklu hærri en við höfum séð áður. „Þetta má að miklu leyti rekja til aukningar á fjölda ungra sjúklinga sem eru að nota sterka ópíóíða í æð (contalgin og oxycodone),“ segir á vef SÁÁ, þar sem vitnað er til erindis Þórarins. „Hvað dauðsföllin varðar hafa þau verið miklu færri allt frá árinu 2000 meðal þeirra sem eru yngri en 40 ára. Í aldurshópnum undir 30 ára skera fjögur ár sig úr; árin 2000, 2001, 2014 og nú 2017 sem er versta árið með 14 dauðsföll hjá þeim sem eru 29 ára og yngri. Fíkn í sterkari ópíóíða (morfin og oxycontine) byrjar að vaxa aftur árið 2013 og nær áður óþekktri stærð með 166 einstaklingum árið 2016. Yfir 80% þessara sjúklinga nota þessi vímuefni í æð,“ segir á vef SÁÁ.