Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun fá skýrslu nefndar, sem gert hefur tillögur að lagabreytingum eða nauðsynlegum aðgerðum til að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, í hendurnar í fyrramálið. Samkvæmt heimildum Kjarnans er jafnframt gert ráð fyrir því að skýrslan muni birtast almenningi seinna um daginn.
Við vinnslu skýrslunnar höfðu nefndarmenn skoðað rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi, í nágrannalöndunum og annars staðar í Evrópu. Einnig höfðu þeir kallað eftir hugmyndum frá fjölmiðlunum sjálfum um hvernig hægt væri að bæta rekstur þeirra.
Megindrög skýrslunnar voru tilbúin síðastliðið sumar og drög að tillögum lágu fyrir en þau voru enn ósamþykkt í haust innan nefndarinnar. Formaður nefndarinnar, Björgvin Guðmundsson, sagði í ágúst að engar deilur hefðu verið innan nefndarinnar en að það þyrfti að komast að samkomulagi um hverjar tillögurnar ættu að vera og birta síðan skýrsluna eftir að hún hefði verið kynnt fyrir mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, skipaði nefndina í árslok 2016. Kjarninn greindi frá því um miðjan júní í fyrra að unnið væri að frágangi skýrslunnar, samkvæmt svörum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Stefnt yrði að því að niðurstöður úr vinnu nefndarinnar myndu verða kynntar fyrir sumarleyfi, eða fyrir júnílok. Sú dagsetning stóðst ekki.