Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins lýsti yfir vonbrigðum með fyrstu vikur nýrrar ríkisstjórnar í starfi. Sigmundur ræddi stöðuna í stjórnmálum og verkefnin framundan á fyrsta fundi Alþingis á nýju ári í dag.
Fyrrverandi forsætisráðherra sagði ríkisstjórnina ekki stjórn mikilla breytinga, ekki stjórn stórra lausna heldur stjórn til að halda í horfinu og eyða peningum.
Sigmundur hæddist að því að stjórnarsáttmálinn héti ekki stjórnarsáttmáli heldur sáttmáli um samstarf þriggja flokka og eflingu Alþingis.
Hann efaðist um vilja stjórnarinnar til að efla Alþingi á þeim grundvelli að ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu nú hver og einn að ráða sér tvo aðstoðarmenn, en þeir hafi aldrei verið fleiri. Ríkisstjórnin hafi að auki sett umtalsverða fjármuni í önnur pólitísk verkefni á þeirra vegum en heildaraukning við kostnað ríkisstjórnarinnar sé 50 prósent. Verið sé að styrkja pólitíska stöðu flokkanna sem mynda stjórnina - sem reyndar veiti ekki af til að veita henni aðstoð til að útskýra út á hvað þetta stjórnarsamstarf gengur.
Á móti fái Alþingi víst að ráða einn nýjan starfsmann. Það sé niðurstaða ríkisstjórnarinnar um eflingu Alþingis.
Það sé sjálfstætt markmið að auka útgjöld ríkisins, líkt og fram hafi komið í ræðu Katrínar Jakobsdóttur við upphaf þingfundar, en staða þingsins verði ekki styrkt. Það hafi komið bersýnilega í ljós þegar skipað var í nefndir þingsins, þar sem stjórnarandstaðan fékk ekkert umfram það sem hún átti rétt á. Auk þess hafi ekki ein tillaga stjórnarandstöðunnar til breytinga á fjárlögum verið samþykkt.
„Eina sem hún [ríkisstjórnin] getur gert er að ausa peningum í gölluð kerfi,“ sagði Sigmundur Davíð.