Aron Leví Beck, formaður Hallveigar félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, gefur kost á sér í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.
Fyrir hefur borgarfulltrúinn Skúli Helgason boðið sig fram í 3. sætið.
Flokksval mun fara fram 10. febrúar. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur þegar gefið það út að hann ætli að bjóða sig fram að nýju og mun nær örugglega leiða lista flokksins.
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og borgarfulltrúi, hafði áður tilkynnt að hún sækist eftir stuðningi í 2. sæti framboðslista flokksins. Hún var í sjötta sæti á framboðslista flokksins í kosningunum árið 2014 og náði ekki kjöri sem aðalmaður í borgarstjórn. Heiða Björg kom hins vegar inn í borgarstjórn þegar Björk Vilhelmsdóttir, sem var í 2. sæti á lista flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, ákvað að hætta í stjórnmálum haustið 2015.
Búist er við því að Hjálmar Sveinsson, sem sat í þriðja sæti listans 2014, bjóði sig aftur fram og muni sækjast eftir sæti ofarlega á lista. Þá hefur borgarfulltrúinn Kristín Soffía Jónsdóttir einnig gefið það út að hún sé að velta áframhaldandi framboði fyrir sér.
Í tilkynningu frá Aroni kemur fram að hann hyggist berjast fyrir bættri stöðu ungs fólks í borginni með því meðal annars að flýta uppbyggingu á þéttingarreitum, þar á meðal í Örfirisey. Hann er fylgjandi uppbyggingu Borgarlínu og segir leikskólamál eiga að vera forgangsatriði.