Eiríkur Jónsson lagaprófessor við Háskóla Íslands, hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu og krefjast bóta vegna ólögmætra athafna Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra þegar hún skipaði dómara í Landsrétt. Eiríkur var einn þeirra fjögurra sem dómnefnd hafði talið á meðal 15 hæfustu til að starfa í réttinum en Sigríður vék til hliðar. Raunar hafði dómnefndin metið Eirík sjöunda hæfasta umsækjandann, en hann var samt látinn víkja af lista dómsmálaráðherra.
Eiríkur sendi kröfu á ríkislögmann 28. desember síðastliðinn þar sem hann krafðist bóta vegna málsins. Grímur Sigurðsson, lögmaður Eiríks, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið að íslenska ríkið hafi viðurkennt greiðslu miskabóta en hafnað bótaskyldu að öðru leyti. „Eiríkur hefur því ákveðið að stefna ríkinu. Stefnugerðin er á lokametrum og verður stefnan birt fyrir ríkinu á næstunni. Í stefnunni er ekki sett fram fjárkrafa heldur krafa um viðurkenningu á bótaskyldu. Sú bótaskyldan er að okkar mati ótvíræð og nú þegar dæmd, með dómum Hæstaréttar í málum Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar og Ástráðs Haraldssonar.“
Braut gegn ákvæðum stjórnsýslulaga
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað að víkja frá hæfnismati dómnefndar um skipun 15 dómara í Landsrétt í lok maí 2017. Hún ákvað að tilnefna fjóra einstaklinga dómara sem nefndin hafði ekki metið á meðal 15 hæfustu og þar af leiðandi að skipa ekki fjóra aðra sem nefndin hafði talið á meðal þeirra hæfustu. Alþingi samþykkti þetta í byrjun júní 2017.
Þeir eru báðir starfandi lögmenn og lögðu ekki fram nein gögn sem gátu sýnt fram á fjárhagstjón vegna ákvörðunar ráðherra. Skorað var á þá fyrir dómi að leggja fram skattframtöl og þar með upplýsingar um tekjur sínar þannig að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort þeir hefðu beðið „fjártjón vegna þeirra ákvarðana dómsmálaráðherra sem um ræðir í málinu“. Hvorugur þeirra gerði slíkt og þess vegna var íslenska ríkið sýknað af viðurkenningarkröfu um fjártjón. Íslenska ríkinu var hins vegar gert að greiða þeim miskabætur.
Gætu átt háar bótakröfur
Tveir aðrir menn sem voru á lista dómnefndar yfir þá sem átti að skipa dómara höfðuðu ekki mál. Annar þeirra, Jón Höskuldsson héraðsdómari, sendi hins vegar kröfu á íslenska ríkið eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir þar sem hann krafði það um skaða- og miskabætur vegna skipunar í Landsrétt. Þeirri kröfu var ekki svarað og Jón hefur nú höfðað mál.
Jón krefst þess að fá bætt mismun launa, lífeyrisréttinda og annarra launatengdra réttinda dómara við Landsrétt annars vegar og héraðsdómara hins vegar. Jón krefst þess að fá þennan mun greiddan út starfsævi sína, eða í níu ár. Landsréttardómarar fá 1,7 milljónir króna í laun á mánuði en héraðsdómarar 1,3 milljónir króna.
Nú hefur Eiríkur einnig ákveðið að stefna íslenska ríkinu. Hann er, líkt og áður sagði, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Hann er fæddur árið 1977 og er því fertugur að aldri. Eiríkur á því um 27 ár eftir á vinnumarkaði miðað við hefðbundinn eftirlaunaaldur. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félags prófessora ætti Eiríkur að vera með á bilinu 659.683 til 727.572 krónur í mánaðarlaun.
Það er um einni milljón króna frá þeim mánaðarlaunum sem hann hefði haft sem dómari við Landsrétt.