Björn Valur Gíslason, fyrrverandi þingmaður og varaformaður Vinstri grænna (VG), segir að það sé ekki óvarlegt að ætla að dagar Sigríðar Á. Andersen í embætti dómsmálaráðherra séu senn taldir.
Í nýrri stöðuuppfærslu á heimasíðu sinni segir Björn Valur að trúverðugleiki Sigríðar sé verulega laskaður og að fátt bendi til þess að hann muni lagast í bráð. „Vinstri græn halda flokksráðsfund um næstu helgi í Reykjavík en flokksráð er æðsta stofnun hreyfingarinnar milli landsfunda. Það má vænta þess að staða dómsmálaráðherra verði rædd á fundinum og kæmi mér ekki á óvart flokksráð taki afstöðu til þess hvort ráðherrann njóti trausts flokksmanna eða ekki. Um annað eins hefur nú verið ályktað á fundum flokksins. Vinstri græn eru að lenda í nokkurri klemmu vegna stöðu dómsmálaráðherrans og munu þurfa að taka á því með einhverjum hætti ef ekki á illa að fara.“
Björn Valur lét af embætti varaformanns Vinstri grænna í október síðastliðnum.
Umboðsmaður sendi bréf
Ástæðan fyrir stöðu Sigríðar er ákvörðun hennar um að víkja frá hæfnismati dómnefndar um skipun 15 dómara í Landsrétt í lok maí 2017. Hún ákvað að tilnefna fjóra einstaklinga dómara sem nefndin hafði ekki metið á meðal 15 hæfustu og þar af leiðandi að skipa ekki fjóra aðra sem nefndin hafði talið á meðal þeirra hæfustu. Alþingi samþykkti þetta í byrjun júní 2017.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í desember að Sigríður hafi brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún ákvað að fara gegn áliti dómnefndarinnar. Í gær birti Stundin svo gögn sem sýna að sérfræðingar stjórnarráðsins höfðu varað ráðherrann við því að svona gæti farið.
Í fréttum RÚV í kvöld var greint frá því Umboðsmaður Alþingis hafi ritað bréf til dómsmálaráðherra 8. janúar síðastliðinn þar sem hann óskaði eftir upplýsingum vegna skipunar hennar á dómurum í Landsrétti. Þetta gerði hann til að undirbúa sig fyrir fund sem hann var boðaður á hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis 18. janúar.