„Sá flokkur sem olli síðustu stjórnarslitum með gargi og atgangi út af litlu, kjósendur ákváðu að henda honum út af þingi. Ég held að menn séu búnir að fá nóg af þessu gargi. Og þó að mönnum verði á í stjórnsýslu samkvæmt einhverri niðurstöðu Hæstaréttar, að það sé tilefni til afsagnar og menn standi hér alltaf á götuhornum og heimti afsögn, þingrof, nýjar kosningar, út af engu, eða svo gott sem engu[...]þetta er örugglega sú ástæða sem stök er mesta skýringin á þessu vantrausti sem almenningur ber til stjórnmálanna.“
Þetta sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Þar ræddu Páll og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, meðal annars kröfur um afsögn Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra vegna Landsréttarmálsins, stjórnarslitin síðastliðið haust og traust í stjórnmálum.
Þorgerður var ósammála Páli um að síðasta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafi sprungið út af litlu. Uppreist æru-málið og leyndarhyggjan í kringum það, þar sem upplýsingum um aðkomu föður Bjarna Benediktssonar að uppreist æru dæmd barnaníðings var haldið frá samstarfsmönnum í ríkisstjórn, þingmönnum, fjölmiðlum og almenningi, væri ekki lítið mál.
„Út í hött“ að ráðherra segi af sér
Páll var líka spurður út í þá stöðu sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra er í, en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í desember að hún hefði brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún ákvað að skipa fjóra dómara í Landsrétt sem dómnefnd hafði ekki talið hæfasta til þess. Ný gögn sem birt voru í Stundinni í gær sýndu að sérfræðingar stjórnarráðsins höfðu varað ráðherrann ítrekað við því að hún væri mögulega ekki að uppfylla rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga með athæfi sínu.
Páll sagði að fyrir sína parta væri allt í lagi með stöðu Sigríðar. Kröfur um afsögn hennar væru dæmi um ýkt, yfirdrifin og stórkarlaleg viðbrögð við of litlu tilefni. „Ég held að það sé búið að þvarga þessu máli út í talsverða vitleysu[...]að tala um afsögn ráðherra af þessum ástæðum finnst mér algjörlega út í hött. Mér finnst að menn ættu að minnka gargið og þvargið í kringum þetta og horfa á hvert er efni málsins. Það er ekkert tilefni til ráðherraafsagnar í þessu máli.[...]Ég lít ekki svo á að þetta [mál] sé sérstakur kistill á baki ráðherra.“