Eyþór Arnalds, frambjóðandi í oddvitakjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík, var einn stofnfélaga á stofnfundi samtakanna 102 Reykjavík árið 2001.
Meginmarkmið samtakanna var að Reykjavíkurflugvöllur fari úr Vatnsmýrinni. Í ályktun sem fundurinn sendi frá sér kom fram áskorun til borgaryfirvalda um að leitað verði skýrra og afdráttarlausra svara með einfaldri spurningu í þá fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu um staðsetningu vallarins.
Eins og kunnugt er var kosið í Reykjavík sama ár um framtíð Vatnsmýrarinnar og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og var niðurstaða kosningarinnar sú að 50,7 prósent vildu flugvöllinn burt en 49,3 vildu að völlurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni. Rúmlega 30 þúsund tóku þátt í kosningunni sem þá var 37,2 prósenta kjörsókn. Borgarráð hafði fyrir atkvæðagreiðsluna ákveðið að hún yrði bindandi ef 75 prósent atkvæðabærra manna tækju þátt eða að 50 prósent atkvæðisbærra mann greiddu öðrum valkostinum atkvæði sitt.
Á fundinum tók Eyþór til máls og samkvæmt fréttaflutningi Morgunblaðsins voru hann og aðrir ræðumenn sammála um að flugvöllurinn þyrfti að fara úr Vatnsmýrinni. Það væri lykillinn að betri borg.
Eyþór, sem berst núna við fjögur flokkssystkini sín um oddvitasæti á lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum sem fram fara í vor, er ekki lengur á þessari skoðun.
Í samtali við Kjarnann segir Eyþór staðsetningu eða tilfærslu flugvallarins ekki vera forgangsatriði. Hann segir að meðan ekki sé annar kostur í boði sem er betri eða jafn góður þá verði flugvöllurinn áfram þar sem hann er. Hann segist ekki munu beita sér fyrir því að færa flugvöllinn til að byggja upp byggð í 102 Reykjavík.
Um stofnfund samtakanna sem hann sótti á sínum tíma segir Eyþór að fundurinn hafi verið haldinn í aðdraganda áðurnefndrar atkvæðagreiðslu. Á fundinum og víðar í umræðunni hafi verið uppi hugmyndir um að færa flugvöllinn í Skerjafjörð. Þær hugmyndir hafi verið mjög áhugaverðar, þannig hefði verið tryggt að flugvöllurinn væri áfram í Reykjavík en hægt hefði verið að byggja upp í Vatnsmýrinni. En síðan hafi til dæmis Rögnunefndin skilað af sér sinni niðurstöðu, þar sem enginn kostur var talinn betri en núverandi staðsetning flugvallarins og svo virðist vera sem hugmyndir um flugvöll í Skerjafirði séu hvorki á borðinu hjá borginni né flugmálayfirvöldum.
Eyþór segir að meðan staðan sé svona, að enginn kostur sé fyrir augum sem sé betri eða jafngóður fyrir innanlandsflugið, vilji hann heldur einbeita sér að öðrum málefnum innan borgarinnar, svo sem húsnæðismálum og samgöngumálum.
„Ég hef alltaf verið opinn fyrir nýjum hugmyndum í skipulagsmálum, ef þær eru raunsæjar og leysa málin. En það eru bara önnur mál sem eru brýnni heldur en að fara í þetta,“ segir Eyþór.