Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi sækist eftir 2. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar sem fram fer þann 10. febrúar.
Í tilkynningu frá Kristínu Soffíu kemur fram að hún hafi varið seinustu átta árum í baráttu fyrir betri borg á vettvangi borgarstjórnar og setið þar sem borgarfulltrúi frá árinu 2014. Áherslur hennar hafa verið í umhverfis-, skipulags- og samgöngumálum auk þess sem hún hafi látið til sín taka í aðgengismálum fatlaðra.
Kristín Soffía er með BS í umhverfisverkfræði sem hún segir hafa gagnast henni vel og hún hafi lært gríðarlega mikið á þessum átta árum í borgarmálum. Hún er þessa dagana og mánuðina viðskiptavinur dagforeldra- og leikskólakerfisins og þekkir stöðuna eins og hún er í dag.
Fyrir hefur varaformaður flokksins, Heiða Björg Hilmisdóttir, gefið kost á sér í annað sætið. Hún var í sjötta sæti á framboðslista flokksins í kosningunum árið 2014 og náði ekki kjöri sem aðalmaður í borgarstjórn. Heiða Björg kom hins vegar inn í borgarstjórn þegar Björk Vilhelmsdóttir, sem var í 2. sæti á lista flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, ákvað að hætta í stjórnmálum haustið 2015.