Líf Magneudóttir oddviti Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sækist eftir að leiða flokkinn áfram í Reykjavík.
Í tilkynningu frá Líf segir að stefna og sjónarmið Vinstri grænna eigi að vera í stafni þegar ákvarðanir eru teknar í borgarstjórn og við daglega stjórnun borgarinnar næstu fjögur árin.
Líf segir að marka þurfi afdráttarlausa stefnu í átt til sjálfbærni og umhverfisverndar, jöfnuðar, mannúðar og mennsku - í öllu tilliti. Stærstu viðfangsefni stjórnmálanna séu að bregðast við loftslagsbreytingum af mannavöldum, uppræta kynbundið ofbeldi og útrýma efnahagslegu, félagslegu og öðru misrétti.
Líf Magneudóttir er borgarfulltrúi Vinstri grænna og forseti borgarstjórnar. Frá 2010-2014 sat Líf í skóla- og frístundaráði. Hún var varaborgarfulltrúi frá 2014-2016, formaður mannréttindaráðs, varaformaður skóla- og frístundaráðs og fulltrúi í stjórn Faxaflóahafna sf. Líf var kosin forseti borgarstjórnar í lok september 2016 þegar hún tók sæti í borgarstjórn og borgarráði.