Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, mælti fyrir þingsályktun um bætt kjör kvennastétta á Alþingi í dag. Að tillögunni stendur allur þingflokkur Viðreisnar, allir þingmenn Samfylkingarinnar og Helgi Hrafn Gunnarsson úr þingflokki Pírata.
Í ályktuninni segir að „ráðist verði í greiningu á launakjörum fjölmennra kvennastétta, svo sem kennara og heilbrigðisstarfsfólks, í samanburði við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð sem starfa hjá hinu opinbera.
Á grundvelli þeirrar greiningar verði gerður sérstakur kjarasamningur um leiðréttingu á kjörum þessara stétta. Samningurinn feli í sér sérstakar hækkanir til viðbótar við almennar hækkanir kjarasamninga á vinnumarkaði. Leitast verði við að ná samstöðu allra helstu samtaka innan verkalýðshreyfingarinnar um slíkt átak og um leið samþykki fyrir því að sérstakar hækkanir á grundvelli þess verði ekki grunnur að launakröfum annarra starfsstétta.“
Þingsályktunin hefur verið birt á vef Alþingis, og er fjallað þar um mikilvægi þess að uppræta kynskiptan vinnumarkað á Íslandi. „Kynskiptur vinnumarkaður er því miður veruleiki í íslensku samfélagi og er skammarlegt að sum störf séu metin minna virði en önnur. Hið opinbera verður að fjárfesta í tíma til að taka á þessu, en það virðist vera eins og hið opinbera hafi ekki náð að forgangsraða í þessa átt áður. Um er að ræða fjölmennar stéttir, og ljóst er að slík leiðrétting myndi fela kostnað í för með sér, en það er nauðsynlegt að gera það,“ segir í tilkynningu vegna þingsályktunartillögunnar.
Þá segir í tilkynningunni að það þurfi víðtækt samráð til að taka næstu skref. „Hlutverk stjórnmálanna næstu misserin verður að leiða samtal verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, ríkis og sveitarfélaga og leggja þannig grunn að víðtækri sátt um þjóðarátak í átt til stóraukins launajafnréttis,“ segir í tilkynningunni.