Guðrún Ögmundsdóttir fyrrverandi alþingismaður og borgarfulltrúi hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar.
Í samtali við Kjarnann segist Guðrún stefna á 5. - 8. sæti listans. Forval flokksins fer fram þann 10. febrúar næstkomandi.
Unfanfarið hefur Guðrún starfað sem tengiliður vegna vistheimila hjá dómsmálaráðuneytinu. Guðrún var varaborgarfulltrúi í Reykjavík árin 1990 til 1992 og borgarfulltrúi frá þeim tíma til ársins 1998. Guðrún var þingmaður Samfylkingarinnar á árunum 2003 til 2007 og er menntuð í félagsfræði og félagsráðgjöf auk fjölmiðlafræði.
Guðrún hefur starfað af félagsmálum með margvíslegum hætti í gegnum árin í hinum ýmsu ráðum og nefndum víðs vegar í samfélaginu.
Hún segist alltaf hafa haft mikið áhuga á borgarmálunum sem og áhuga á þeim sem minnst mega sín. „Ég finn að það þarf að gera eitthvað, það eru svo margir einmana og við þurfum að fara að hugsa þessi mál upp á nýtt,“ segir Guðrún.
Guðrún segist hafa fengið mikið af áskorunum, ekki aðeins frá fólki úr Samfylkingunni heldur frá fólki víða að í samfélaginu.