„Færri veita því ef til vill athygli að gengisþróun krónunnar gagnvart mismunandi myntum var gjörólík á árinu. Þótt gengi krónunnar sé svo til óbreytt (árið 2017) að meðaltali, þá styrktist krónan til dæmis nokkuð gagnvart Bandaríkjadal, eða um 8%, en veiktist á móti evrunni um 5%. Hverju skyldi það sæta?“
Þetta er meðal þess sem Hafsteinn Gunnar Hauksson, hagfræðingur hjá GAMMA, fjallar um í ítarlegri grein í Vísbendingu, sem kemur út í dag. Í henni fer hann yfir gengisþróun krónunnar gagnvart evru og Bandaríkjadal, og fjallar um helstu kenningar og ástæður gengisþróunarinnar.
Bandaríkjadalur kostar nú 100 krónur en evran 125 krónur. Bandaríkjadalurinn hefur ekki verið veikari gagnvart evru þrjú ár.
Í grein sinni fjallar Hafsteinn um gengisþróun krónunnar, og það sem hann kallar samflot krónunnar með evrunni. „Að jafnaði koma um 20% gengisbreytingarinnar fram gagnvart evrunni, en 80% gagnvart dalnum; ef bandaríkjadalur veikist um 1% gagnvart evru, þá styrkist krónan með öðrum orðum að jafnaði um 0,8% gagnvart dal, en veikist um 0,2% gagnvart evru. Þetta hlutfall hefur verið nokkuð stöðugt um árabil og er til marks um samflot krónunnar með evrunni,“ segir meðal annars í grein Hafsteins.