Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að Bandaríkjaþing stofni 25 milljarða dala sjóð, jafnvirði 2.500 milljarða króna, vegna byggingar múrs á landamærum Bandaríkjanna, meðal annars gagnvart Mexíkó. Í staðinn segist Trump tilbúinn til að láta 1,8 milljónir ungra innflytjenda fá bandarískan ríkisborgararétt á næstu 10 til 12 árum.
Innflytjendurnir sem um ræðir eru svokölluð draumabörn (e. dreamers), en í fyrstu stóð til að vísa þeim úr landi. Demókratar mótmæltu þeim hugmyndum, og hluti Repúblikana sömuleiðis. Þetta leiddi til samningaviðræðna, sem enn standa yfir, en Trump vonast til þess að leysa úr málinu með þessum „skiptum“.
Trump marglýsti því yfir í kosningabaráttu sinni, að Mexíkó myndi borga fyrir múrinn, ekki Bandaríkin.
Óhætt er að segja að Trump standi í miklum stórræðum þessa dagana, og hafa fjölmiðlar í Bandaríkjunum sagt að mikill titringur sé nú í starfsliði forsetans vegna rannsóknar saksóknarans Roberts Mueller á tengslum Rússa við framboðs Trumps og kosningabaráttuna árið 2016.
In one of the biggest stories in a long time, the FBI now says it is missing five months worth of lovers Strzok-Page texts, perhaps 50,000, and all in prime time. Wow!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 23, 2018
New York Times greinir frá því í dag, að Trump hafi viljað láta reka Mueller í júní í fyrra, en lögmaður í Hvíta húsinu, Donald McGahn, hafi lagst gegn því og sagt að afleiðingarnar gætu orðið alvarlegar fyrir forsetaembættið og forsetann sjálfan.
Sjálfur hefur Trump sagt, að hann vilji ræða við Mueller sem fyrst, og kallar rannsókn hans mestu nornaveiðar í sögu stjórnmálanna.