Eyþór Laxdal Arnalds er efstur í oddvitaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fór í dag. Fyrstu tölur voru lesnar upp nú fyrir skömmu.
Alls hafa verið talin 1.400 atkvæði en Eyþór hlaut af þeim 886, sem gera tæp 63 prósent.
Ekki verður gefið upp hversu mörg atkvæði aðrir frambjóðendur hlutu. Auk Eyþórs gáfu þau Áslaug Friðriksdóttir, Kjartan Magnússon, Vilhjálmur Bjarnason og Viðar Guðjohnsen kost á sér.
Í samtali við Kjarnann segir Eyþór að tölurnar sýni meiri stuðning en hann hefði látið sig dreyma um. „Það eru bara tvær vikur síðan á ákvað að kýla á þetta og það er greinilegt að þær áherslur sem ég er með eiga hljómgrunn hjá borgarbúum,“ segir hann.
Eyþór segir oddvitaprófkjörið stórt, margir sem taka þátt og niðurstaðan, verði hún með þessum hætti, sýni vel hvert hugur fólks stefnir í borgarmálunum. „Ég er bara auðmjúkur gagnvart því að hafa fengið svona mikið fylgi í þetta og ætla mér að standa undir þessu trausti eins vel og ég get,“ segir Eyþór.
Vonast er til að talningu ljúki um klukkan níu í kvöld.