„Nú er krafa uppi um að okkar forsætisráðherra beiti sér eins og einhver einræðisherra og ráði og reki ráðherra, eins og kallað er eftir hverju sinni. Sem betur fer virkar okkar stjórnskipan ekki alveg þannig,“ sagði Edward Huijbens varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í opnunarræðu sinni á Flokksráðsfundi flokksins í morgun.
Edward ræddi þar stöðu flokksins og verkefnin framundan og kom töluvert inn á stöðu Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, sem situr í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna.
Skipun Sigríðar á dómurum í Landsrétt hefur reynst Sigríði erfitt mál, en Hæstiréttur dæmdi tveimur umsækjendum sem hún veitti ekki embætti við réttinn, miskabætur þar sem hún var talin hafa brotið lög við skipunina.
Edward sagði að sem betur fer væri það þannig að ráðherrar séu ábyrgir fyrir sér sjálfir og sínum ákvörðunum og sem betur fer sé ábyrgðin fyrst og fremst ævinlega kjósenda sjálfra er kemur að því hverjir veljast í ráðherrastóla. „Þeir sem kjósa flokka og ráðherra á þing aftur og aftur, sem sannarlega hafa farið á svig við lög og reglur, hljóta að verða skoða hug sinn vandlega. Ég vil skila skömminni, skila henni til þeirra sem kusu, vitandi vits yfir okkur ráðherra sem aðeins virðist vilja fylgja eigin villuljósi,“ sagði Edward.
Hann sagði einnig til ferli fyrir þessi mál í okkar kerfi, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætli að fara ofan í saumana á þessu og umboðsmaður Alþingis fylli í allar eyður sem nefndin mögulega skilur eftir.
„Já kæru félagar, það hitnar undir Sigríði Á Andersen og til að þetta eldist nú allt vel og brenni ekki, er betra að hækka hitann rólega,“ sagði Edward.